300 milljónir króna fari í landkynningu árlega
Ferðamálaráð Íslands fundaði síðastliðinn föstudag. Þar samþykkti ráðið meðal annars að beina því til samgönguráðherra að fjárframlög til landkynningar á næsta ári verði stóraukin og að stefnt skuli að því að fjármunir til markaðssóknar verði um 300 milljónir króna árlega. Sturla Böðvarsson kveðst fagna þessum tillögum sem hann hyggst skoða nánar og vinna úr, segir á vef ráðuneytisins.
Rannsókn á áhrifum hvalveiða
Fundurinn á föstudag var framhald fundar frá mánudeginum áður. Boðað var til fundarins að beiðni Dags Eggertssonar til að ræða þá stöðu sem upp er komin í kjölfar þess að hvalveiðar voru hafnar. Leggur Ferðamálaráð til að ráðist verði þegar í stað í rannsókn á vegum hlutlauss aðila til að fá heildarmynd af áhrifum hvalveiða í atvinnuskyni á íslenska ferðaþjónustu og ímynd landsins á erlendum mörkuðum. Einnig að kannaðar verði skoðanir almennings sem og söluaðila ferðaþjónustu á erlendum mörkuðum. Ferðamálaráð bendir einnig á að við endurskoðun laga um hvalveiðar verði tekið tillit til þarfa og hagsmuna ferðaþjónustu, meðal annars hvalaskoðunarfyrirtækja og að haft verði samráð við ferðamálaráð og/eða samráðshóp hagsmunaaðila við framkvæmd tillagna ráðsins.
Brýnt að auka kynningu á Íslandi
Á vef samgönguráðuneytisins er haft eftir Sturla Böðvarssyni að brýnt sé að auka kynningu á Íslandi erlendis. Ferðaþjónustan sé Íslendingum mikilvæg atvinnugrein sem leggi mikið til þjóðarbúsins. Hann segir að nýjar atvinnugreinar hafi orðið til frá því lög um hvalveiðar voru sett, til dæmis hvalaskoðunarfyrirtæki, og gera verði ráð fyrir því að ólíkar atvinnugreinar geti fengið að njóta sín. ,,Ferðaþjónustan á Íslandi á að halda áfram að sækja fram. Hún hefur til þess alla burði og með nokkrum stuðningi stjórnvalda og öflugu markaðsstarfi hef ég fulla trú á því að atvinnugreinin standi áfram vel að vígi,? segir samgönguráðherra í frétt á á vef ráðuneytisins.
Nýtt hlutverk Ferðamálaráðs
Með nýjum lögum um skipan ferðamála, sem tóku gildi í ársbyrjun, breyttist hlutverk Ferðamálaráðs. Samkvæmt lögunum er meðal hlutverka ráðsins að leggja tillögur um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnarfyrir samgönguráðherra og vera honum til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum. Ferðamálaráð skal einnig veita umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál og annað sem ráðherra felur því eða ráðið telur ástæðu til að taka upp í þágu ferðaþjónustunnar.