33,5 milljónum króna úthlutað til verkefna í ferðaþjónustu
Nítján verkefni fengu í gær úthlutað samtals 33,5 milljónum króna úr Þróunarsjóði ferðamála. Að honum standa Landsbankinn og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.
Sjóðurinn var stofnaður í tengslum við verkefnið Ísland allt árið og markmiðið með starfrækslu hans er að efla starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu utan háannatíma og auka arðsemi þeirra. Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og barst honum 61 umsókn að þessu sinni.
Þróunarsjóðnum er ætlað að styðja við samstarfsverkefni fyrirtækja á tilteknum svæðum eða afbragðsverkefni stakra fyrirtækja undir sömu formerkjum. Hvatt er til samstarfs skapandi greina við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Sjóðurinn styrkir einkum verkefnisstjórn, greiningarvinnu, undirbúning verkefna, kaup á ráðgjöf og þróun hugmynda en einnig önnur verkefni sem stuðlað geta að lengingu ferðamannatímans. Styrkir sjóðsins geta að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnis.
Í dómnefnd sátu þau Finnur Sveinsson, Davíð Björnsson og Guðný Erla Guðnadóttir frá Landsbankanum, Ólöf Ýrr Atladóttir, Ferðamálastofu, Berglind Hallgrímsdóttir Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ásborg Arnþórsdóttir tilnefnd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Formaður dómnefndar var Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Landsbankanum.
Yfirlestur og mat umsókna önnuðust verkefnisstjórar frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ferðamálastofu. Eftirfylgni og afgreiðsla styrkja verður í höndum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir:
„Sjálfbær vöxtur ferðaþjónustunnar kallar á að sífellt sé verið að þróa ný tækifæri
ferðamanna til upplifunar, þannig að viðgangur atvinnugreinarinnar sé ekki eingöngu metin út frá tölum um fjölgun ferðamanna, heldur ekki
síður út frá athöfnum þeirra, hegðun og þeirri reynslu sem þeir deila með vinum sínum þegar heim er komið.
Þróunarsjóðurinn hefur komið til móts við þá þörf sem skapast hefur fyrir vandaða þjónustu við ferðamenn og
verið frumkvöðlum á þessu sviði hvatning.“
Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans segir:
„Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með þeim vexti sem orðið hefur í ferðaþjónustu á síðustu
árum og nýjar rannsóknir sýna að greinin skapar senn meiri gjaldeyristekjur en sjávarútvegurinn. Landsbankinn hefur tekið þátt í
þessum vexti af fullum krafti og staðið við bakið á ferðaþjónustufyrirtækjum um allt land bæði með styrkjum og
lánsfjármögnun. Þróunarsjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki við að ýta úr vör spennandi verkefnum, við teljum að
mörg þeirra sem fengið hafa styrk séu líkleg til að skila ávinningi í framtíðinni og ljóst er af umsóknum í
sjóðinn að starfsfólk í ferðaþjónustu hefur mikinn metnað. Við óskum styrkþegum í dag til hamingju og vonum að hugmyndir
þeirra verði að veruleika.“
Styrkhafar ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur, ráðherra ferðamála og Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans.
Eftirtaldir hlutu styrki úr Þróunarsjóði ferðamála að þessu sinni:
Ferðaklasinn ÆSA – Vetrarupplifun á Austurlandi – 4.000.000 kr.
Verkefnið snýst um markaðssetningu á vönduðum ferðum sem byggja á sérstöðu landshlutans og miða að því að ná
ferðamönnum til lengri dvalar á Austurlandi yfir veturinn.
Hestasport – Ævintýraferðir - Í ríki hestsins í Skagafirði - 3.000.000 kr.
Markmiðið er að efla vetrarhestaferðamennsku í Skagafirði. Undir leiðsögn reyndra reiðkennara fá þátttakendur tækifæri til
að reyna allar gangtegundir á framúrskarandi hestum á „heimavelli“ yfir vetrartímann.
I5 - Into the North - 2.800.000 kr.
Ferðir allt árið fyrir erlenda ferðamenn um Ísland, með áherslu á svæði sem nær yfir Húnavatnssýslur og Skagafjörð.
Saga, menning og matur úr héraði leikur stórt hlutverk í einstakri náttúruupplifun.
Okkar konur í Kína - Sterkari saman - Allt árið - 2.700.000 kr.
Markaðssókn á Asíumarkað með megináherslu á Kína. Unnið að fjölgun verðmætra ferðamanna, sem leggja upp úr
sérstakri upplifun og lengri dvöl en almennt tíðkast.
Djúpavogshreppur – Haustafþreying í Djúpavogshreppi – 2.400.000 kr.
Markaðssetning smalamennsku og hreindýraskoðunar, veiða á ref og mink, og selaskoðunar á bátum í umhverfi myrkurs og norðurljósa.
Henry Fletcher – Wildfjords Trail – 2.400.000 kr.
Wildfjords Trail er stígur í villtri náttúru Íslands á milli Ísafjarðar og Látrabjargs. Með því að fara hann mun
fólki gefast kostur á að upplifa einstaka náttúru svæðisins.
Skrifstofa ferða- og menningarmála – Aldamótabærinn Seyðisfjörður-Skapandi allt árið – 2.150.000 kr.
Klasasamstarf skapandi greina og ferðaþjónustu á Seyðisfirði. Markmiðið er að markaðssetja, og þróa afþreyingu fyrir ferðamenn
til að lengja ferðamannatímann.
Íslenski bærinn – Íslenski bærinn – 2.000.000 kr.
Ætlunin er að gefa út yfirlit um íslenska torfbæjararfinn í ljósi vistvænnar byggingarlistar. Íslenski bærinn mun samsanstanda af
heilstæðu húsaþorpi og gert er ráð fyrir að fjöldi gesta sæki það heim á næstu árum.
Helga Hausner – Die Islandfrauen – 1.778.000 kr.
Skipulagning og markaðssetning vikunámskeiða í sjálfseflingu sem fram fara að vetrarlagi á Þingeyri og ætluð er þýskumælandi
konum.
Friður og frumkraftar – Náttúrutengd upplifun fyrir menntaskólahópa – 1.550.000 kr.
Verkefnið snýst um að þróa náttúrutengda upplifun fyrir menntaskólahópa í Skaftárhreppi innan Kötlu jarðvangs þar
sem aðaluppsprettan er íslenskur mosi.
Björgvin Tómasson sf. – Orgelsmiðja – 1.500.000 kr.
Hugmyndin felst í því að opna orgelsmiðjuna fyrir almenningi. Sett verður upp fræðslusýning um starfsemina. Einnig verða
hljóðfæri til sýnis og aðstaða útbúin fyrir tónleikahald.
Rútópía fyrir ferðamenn – Rútópía, ferð um mannlíf og menningu Reykjavíkurborgar – 1.100.000 kr.
Farþegar ferðast í gömlum menningarvagni um listaheim og menningarlíf Reykjavíkurborgar. Þátttakendur kynnast listafólki og öðrum sem
á veginum verða, á fræðandi og óvæntan hátt.
Austurför ehf. – Veiði- og útivistarveisla á Fljótsdalshéraði – 1.000.000 kr.
Veiði- og útivistarveislan dregur fram styrkleika Fljótsdalshéraðs þegar kemur að veiði og útivist og stuðlar að því að
lengja ferðamanntímabilið inn í veturinn.
Undirbúningsfélag um bókabæ á Suðurlandi – Bókabærinn austanfjalls – 1.000.000 kr.
Ætlunin er að mynda hóp samstarfsaðila sem tengjast bókum, menningu og ferðaþjónustu á Suðurlandi.
Sigrún Birna Einarsdóttir – Upplifun á söguslóð – 1.000.000 kr.
Verkefnið miðar að því að virkja þann fjársjóð sem felst í sérstöðu Vesturlands í náttúru,
alþýðumenningu og ekki síst sögulegri arfleifð með áherslu á Borgarfjörð.
Sjálfseignarstofnun Vélsmiðju Guðmundar J. Siguðssonar – Þingeyri
áningastaður Vestfjarða, allt árið – 1.000.000 kr.
Markmiðið er að skapa
sameiginlegan vettvang og opinberan móttökustað fyrir ferðamenn sem heimsækja Þingeyri.
Skagaferðir ehf. – TasteIceland - 1.000.000 kr.
Skipulagðar ferðir um Akranes og nærsveitir fyrir erlenda ferðamenn til að kynna atvinnuhætti og menningu heimamanna með
áherslu á matarmenningu.
Ferðaþjónustan Döff – Ferðaþjónustan Döff – 600.000 kr.
Ætlunin er að bjóða heyrnarlausum erlendum ferðamönnum með því að aka þeim um Ísland og veita leiðsögn á
táknmáli.
Tasting Iceland – Tasting Iceland – 600.000 kr.
Markmiðið er að skipuleggja sælkeraferðir til Íslands og laða að ferðamenn frá Bandaríkjunum og Kanada á haustin með áherslu
á góðan íslenskan mat.