34 þúsund fleiri ferðamenn það sem af er ári
Um 49 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nýliðnum marsmánuði samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða um 15 þúsund fleiri en í sama mánuði árið 2012. Um er að ræða 45,5% aukningu milli ára.
Þreföld aukning ferðamanna frá 2002
Þegar litið er til fjölda ferðamanna í marsmánuði á tólf ára tímabili (2002-2013) má sjá að jafnaði 11,4% aukningu milli ára. Fjöldi ferðamanna hefur nærri þrefaldast frá árinu 2002 en þá komu 17 þúsund ferðamenn til landsins.
Bretar tæplega þriðjungur ferðamanna
Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í mars frá Bretlandi (31,6%). Ferðamenn frá Bandaríkjunum (14,2%), Noregi (7,3%), Þýskalandi (6,4%), Danmörku (5,6%), Frakklandi (5,0%) og Svíþjóð (4,3%) fylgdu þar á eftir. Samtals voru þessar sjö þjóðir þrír fjórðu ferðamanna í mars.
Af einstaka þjóðum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum mest milli ára í mars. Þannig komu 6.351 fleiri Bretar í mars í ár en í fyrra, 2.449 fleiri Bandaríkjamenn og 1.102 fleiri Þjóðverjar.
Veruleg aukning frá öllum markaðssvæðum
Þegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá 69,7% aukningu frá Bretlandi, 61,2% aukningu frá N-Ameríku, 38,7% frá Mið- og Suður Evrópu og 50,5% frá löndum sem eru flokkuð undir ,,annað“. Aukning Norðurlandabúa var í minna mæli eða 10,8%.
Ferðamenn frá áramótum
Það sem af er ári hafa 122.137 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 34 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Um er að ræða 39,3% aukningu milli ára. Verulega aukningu má sjá frá flestum mörkuðum; Bretum hefur fjölgað um 55,5%, N-Ameríkönum um 43,2%, Mið- og S-Evrópubúum um 39,5% og ferðamönnum frá öðrum mörkuðum um 42,6%. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað minna eða um 9,5%.
Ferðir Íslendinga utan
Um 27 þúsund Íslendingar fóru utan í mars síðastliðnum, 850 fleiri en í mars árið 2012. Frá áramótum hafa 71.434 Íslendingar farið utan eða svipaður fjöldi og fór utan árið 2012.
Nánari upplýsingar
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur/Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.
Nánari upplýsingar veitir Oddný Þóra Óladóttir, rannsóknastjóri oddny@ferdamalastofa.is