72 umsóknir um starf markaðsstjóra Ferðamálastofu í Bandaríkjunum
Fyrir stuttu auglýsti Ferðamálastofa laust starf markaðsstjóra í Bandaríkjunum. Umsóknarfrestur er liðinn og eru umsækjendur 72.
Fyrirtækið Hagvangur sá um að auglýsa starfið og tók við umsóknum. Þegar nafnalisti barst Ferðamálastofu kom í ljós að meðal umsækjenda var aðili sem að mati ferðamálastjóra gerði hann samkvæmt stjórnsýslulögum mögulega vanhæfan til að fjalla um ráðninguna og ráða í starfið. Ef ferðamálastjóri er vanhæfur með vísan til stjórnsýslulaga verða jafnframt allir aðrir starfsmenn vanhæfir. Því hefur ferðamálastjóri skrifað samgönguráðuneytinu bréf og gert grein fyrir mögulegu vanhæfi og óskað leiðbeiningar eða aðkomu ráðuneytisins ef stjórnsýsluákvæði vanhæfis á við í þessu máli. Af þessum ástæðum hefur tafist að ganga til viðræðna við umsækjendur og að ráða í starfið, en vonandi styttist í að niðurstaða liggi fyrir.