73 þúsund ferðamenn í september
Samkvæmt talningum Ferðamálastofu fóru um 73 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í september í ár eða 8.500 fleiri ferðamenn en í september í fyrra. Aukningin nemur 13,2% milli ára.
Fjöldi ferðamanna hefur þrefaldast á því tólf ára tímabili (2002-2013) sem Ferðamálastofa hefur haldið úti talningum. Ferðamannafjöldinn hefur farið úr 24.533 árið 2002 í 73.189 árið 2013.
Aukningin hefur verið að jafnaði 10,9% milli ára en miklar sveiflur hafa verið í fjölda milli ára sbr. myndir hér til hliðar gefa til kynna. Hér má annars vegar sjá fjölda ferðamanna hvert ár og hins vegar hlutfallslega breytingu á milli ára.
Bandaríkjamenn, Bretar, Þjóðverjar og Norðmenn tæplega helmingur ferðamanna
Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í september frá Bandaríkjunum (15,8), Bretlandi (11,0%), Þýskalandi (10,5%) og Noregi (9,2%). Þar á eftir komu Danir (6,7%), Svíar (5,3%), Frakkar (5,3%) og Kanadamenn (4,0%). Samtals voru þessar átta þjóðir um tveir þriðju (67,8%) ferðamanna í september.
Af einstaka þjóðum fjölgaði Bretum, Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum mest milli ára í september. Þannig komu 1.774 fleiri Bretar í september ár, 1.727 fleiri Bandaríkjamenn og og 1.251 fleiri Þjóðverjar.
Hlutfallsleg auking frá öllum mörkuðum nema Norðurlöndum
Þegar aukning er skoðuð eftir einstaka markaðssvæðum milli ára má sjá að Norðurlandabúum fækkar. Aukning er hins vegar frá öðrum mörkuðum, 28,1% frá Bretlandi, 11,7% frá N-Ameríku, 11,6% frá Mið- og S-Evrópu og 25,2% frá löndum sem flokkuð eru undir annað.
Um 640 þúsund ferðamenn frá áramótum
Frá áramótum hefur 639.951 erlendur ferðamaður farið frá landinu, um 103 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 19,2% milli ára. Um 40% fleiri Bretar hafa heimsótt landið, fjórðungi fleiri N-Ameríkanar, fjórðungi fleiri ferðamenn frá löndum sem flokkast undir annað og um 15% fleiri Mið- og S-Evrópubúar. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað mun minna eða um 2,9%.
Ferðir Íslendinga utan
Um 33.500 Íslendingar fóru utan í september eða um 1200 fleiri en í fyrra. Frá áramótum hafa um 274 þúsund Íslendingar farið utan eða um 1.300 færri en á sama tímabili árið 2012. Fækkunin nemur hálfu prósenti milli ára.
Nánari upplýsingar
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.