Fara í efni

Aðalfundur ETC á Íslandi vorið 2007?

nordurljosireykjavik
nordurljosireykjavik

Eins og kom fram í frétt hér að neðan þá heimsótti samgönguráðherra Sturla Böðvarsson, ásamt fylgdarliði, aðalskrifstofu Ferðamálaráðs Evrópu (ETC) síðastliðinn mánudag. Í framhaldi af fundi samgönguráðherra með framkvæmdastjóra ETC hefur Ísland boðist til að halda aðalfund ETC vorið 2007 hér á landi.

Ákvörðun um fundarstað næsta árs er tekin á aðalfundi í Brussel nú í apríl. Verði af fundinum myndu sækja hann ferðamálastjórar aðildarríkjanna, sem eru nú 34, auk þess sem á aðalfund ETC er yfirleitt boðið ýmsum forsvarsmönnum í ferðaþjónustu í Evrópu.

Magnús Oddsson ferðamálastjóri, sem setið hefur 14 síðustu aðalfundi ETC, segir að yfirleitt séu 50-70 manns á aðalfundunum og þá sæki oft forsvarsmenn ýmissa Evrópusamtaka í ferðaþjónustu auk ferðamálstjóranna. Þá sé ofar en ekki haldin ráðstefna samhliða fundinum þar sem kallaðir séu til sérfræðingar til að fjalla um málefni ferðaþjónustunnar í Evrópu frá ýmsum hliðum.