Aðgerðaáætlun mótuð eftir vinnufund
Þann 30. nóvember síðastliðinn hélt Höfuðborgarstofa vinnustofu með tæplega níutíu þátttakendum til að safna saman sjónarmiðum og hugmyndum um stöðu og framtíð ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Á næstu vikum verður unnin aðgerðaáætlun úr gögnunum sem komu úr fundinum.
Vinnustofa í þjóðfundarstíl
Vinnustofa Höfuðborgarstofu var sett upp í þjóðfundarstíl og var ráðgjafinn Bjarni Snæbjörn Jónsson fenginn til að stýra vinnustofunni. Í fyrra hluta vinnustofunnar var opinni spurningu velt upp um væntingar ferðamanna til áfangastaðarins og gat hver þátttakandi gefið eins mörg svör og komið með eins margar hugleiðingar og tími leyfði. Svörin úr þessum hluta voru svo flokkuð niður eftir fyrirfram ákveðnum þemum.
Meginniðurstöður dregnar saman
Í seinni umferð var þátttakendum raðað í umræðuhópa eftir þemum. Hver hópur ræddi umræðuefni síns hóps í þaula, velti upp hugmyndum og viðhorfum og flokkaði þeim í undirflokka. Einnig var hægt að bæta við punktum eftir því sem hugmyndir kviknuðu í umræðum. Að lokum voru umræðustjórar á hverju borði beðnir um að taka saman meginniðurstöður hvers borðs og var svo farið yfir mikilvægustu málefnin sem þóttu hafa komið upp á hverju borði.
Aðgerðaáætlun í mótun
Eftir að vinnustofunni lauk voru gögnin sem söfnuðust saman yfirfarin og dregin saman í fjórar grunnstoðir í stefnu. Hver grunnstoð inniheldur svo ákveðna áhersluþætti sem svo innihalda verkefnaflokka. Úr þessum verkefnaflokkum verður unnin aðgerðaráætlun fyrir svæðið, en áætlað er að sú vinna hefjist á næstu vikum.
Nánar má lesa um verkefnið á vef Ferðamálastofu og fleiri fréttir um verkefnið má lesa hér.