Ævintýraeyjan Ísland - Joggingbuxum breytt í gönguskó
Í dag hefst ný markaðsherferð á vegum markaðsverkefnisins Ísland – saman í sókn sem hvetur fólk til að ferðast til Íslands og upplifa þau fjölmörgu ævintýri sem land og þjóð hefur upp á að bjóða.
Í meira en ár hafa ferðalög milli landa verið takmörkunum háð, en nú er farið að birta til. Í nýrri herferð fyrir áfangastaðinn Ísland er fólk hvatt til þess að loka þessu tímabili með táknrænum hætti og enduruppgötva ævintýraþrána á Íslandi.
Fátt hefur verið jafn einkennandi fyrir undanfarið ár og joggingbuxurnar, sem fjöldi fólks hefur notað jafnt heima, sem og í heimavinnu; á fjarfundum og við matarinnkaup í gegnum netið. En nú er komið að því að veita þessum minnisvarða um heimavinnu og samfélagstakmarkanir nýjan tilgang.
Í júlí verður erlendum ferðamönnum gert kleift að endurvinna margnotuðu joggingngbuxurnar sínar, umbreyta þeim gönguskó og halda á vit ævintýranna á Íslandi. Skórnir verða handgerðir og fáanlegir í takmörkuðu upplagi gegn því að mæta á staðinn og framvísa flugmiða til Íslands og notuðum joggingbuxum. Skórnir eru unnir í samstarfi við fatahönnuðinn Ýr Þrastardóttur.
Herferðinni verður fylgt úr hlaði með frumsömdu lagi tónlistarmannsins Ásgeirs Orra Ásgeirssonar - Sweatpant Boots – í flutningi rapparans Rögnu Kjartansdóttur sem er einnig þekkt sem Cell 7.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fékk tækifæri til þess að máta fyrsta parið af joggingbuxnaskónum. „Senn sér fyrir endann á veiruvetri. Senn lýkur hvers kyns hömlum á daglegt líf. Þá getum við ferðast á ný og tekið á móti gestum að utan. Það er mikið gleðiefni að geta aftur boðið ferðalöngum að sækja okkur heim og njóta alls þess sem landið okkar hefur upp á að bjóða.“
Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu: „Það eru spennandi tímar fram undan í íslenskri ferðaþjónustu og við höfum orðið vör við mikinn áhuga ferðamanna á Íslandi að undanförnu. Við höfum haft ákveðið forskot þar sem Ísland var á undan flestum öðrum löndum að létta ferðatakmörkunum, en það er ljóst að mjög hörð samkeppni um ferðamenn er fram undan. Við munum þurfa vinna markvisst að því að ferðamenn velji Ísland sem sinn fyrsta áfangastað eftir heimsfaraldurinn.”
Herferðin stendur í 11 vikur, en megin áhersla verður lögð á Bandaríkin, Kanada, Bretland, Þýskaland, Frakkland, Danmörku og Svíþjóð.
Kynntu þér herferðina nánar á Sweatpantsboots.com