Fara í efni

Áfangastaðaáætlun á Austurlandi

Áfangastaðaáætlun á Austurlandi

 

Allt frá árinu 2014 hefur á Austurlandi verið unnið markvisst af því að þróa áfangastað sem heillar og fangar huga gesta og íbúa. Með markvissri markaðssetningu og þróun á vörumerkinu Austurlandi, aukinni gæðavitund, faglegum vinnubrögðum og færni innan ferðaþjónustunnar verður rekstrargrundvöllur bæði starfandi sem og nýrra og framsækinna fyrirtækja betri sem leiðir af sér atvinnusköpun á fjölmörgum sviðum. Vinna við Áfangastaðinn Austurland fellur inn í vinnu við gerð áfangastaðaáætlunar fyrir svæðið. Austurbrú stýrir þeirri vinnu í samstarfi við Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála.

Samtal við samfélagið allt

Sú hraða þróun sem hefur átt sér stað í ferðaþjónustu á Íslandi felur í sér áskorun um betri stjórnun á ýmsum þáttum en ekki síður skapar hún ótal tækifæri sem brýnt er að nýta til hins ýtrasta.  

Notast var við aðferðafræði áfangastaðahönnunar í því skyni að þróa svæðið með áherslu á sjálfbærni. Hin þverfaglega nálgun er lykilatriði og byggir á samtali við samfélagið allt; sveitarfélög, fyrirtæki, samtök og íbúa Austurlands. Áfangastaðurinn Austurland hefur verið og er samvinnuverkefni, opið öllum sem áhuga hafa, ungum sem öldnum, með mismunandi bakgrunn. 

Unnið hefur verið að gerð áfangastaðaáætlana á landsvísu um nokkurt skeið. Vinnan er heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði/áfangastað, þar með talið þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis. Þessar áætlanir eru unnar út frá hverju landsvæði fyrir sig. Austurbrú stýrir þessari vinnu fyrir Austurlandi í samstarfi við Ferðamálastofu og fellur verkefnið Áfangastaðurinn Austurland inn í áfangastaðaáætlun fyrir svæðið.   

Markmið er að bæta gott samfélag og gera það samkeppnishæfara um íbúa og fyrirtæki með því að skapa áfangastað með breiðri skírskotun. Með góðri áætlun og stýringu stefnum við að því að aukinn ferðamannastraumur verði í sátt við íbúa svæðisins, straumur sem jafnframt leiðir af sér aukna, fjölbreyttari og betri þjónustu við íbúana.

Niðurstöður úr könnun kynntar í desember 

Í lok október var haldin vinnustofa í Sláturhúsinu á Egilsstöðum undir formerkjunum – Áfram veginn – Áfram Austurland. Vinnustofan er liður í áfangastaðaáætlun fyrir fjórðunginn og einnig sem vettvangur að fara yfir og innleiða þau verkfæri sem unnin hafa verið síðastliðin ár. Góð mæting var á vinnufundinn og voru um 50 ferðaþjónustuaðilar skráðir. Einnig er rannsókn í gangi um viðhorf heimamanna um Austurland sem búsetu- og ferðamannastaðar. Sambærileg könnun var framkvæmd árið 2015. Um 900 svör hafa borist og verða niðurstöður kynntar í desember. Þessi könnun mun nýtast vel í áfangastaðaáætlunarvinnuna fyrir Austurland. 

Frekari upplýsingar um verkefnið eru á heimasíðu Ferðamálastofu og Austurbrúar. Verkefnisstjórn er í höndum Maríu Hjálmarsdóttur (maria@austurbru.is) og Daniel Byström (daniel@desgnnation.se).