Fara í efni

Áhrif Kröfluvirkjunar II á ferðaþjónustu og útivist

Krafla
Krafla

Landsvirkjun kannar nú möguleika þess að auka vinnslu jarðhita við Kröflu með því að reisa nýja virkjun. Rannsóknamiðstöð ferðamála gerði rannsókn þar sem metin voru möguleg áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á ferðamennsku umhverfis Kröflu og Mývatn.

Uppbygging virkjunarinnar verður gerð með hliðsjón af áætlaðri vinnslugetu jarðhitasvæðisins við Kröflu. Mývatnssveit hefur lengi verið aðdráttarafl ferðamanna og er Kröflusvæðið hluti af því aðdráttarafli sem dregur ferðamenn til Mývatnssvæðisins. Í kjölfar virkjanaframkvæmda við Kröflu á áttunda áratugnum var lagður vegur að virkjanasvæðinu vestan við Kröflu sem gjörbreytti aðgengi almennings að svæðinu. Kröflueldar sem brunnu frá 1975-1984 höfðu fengið mikla athygli í fjölmiðlum og vakið forvitni margra á að heimsækja svæðið. Náttúruperlur á borð við Víti og Leirhnjúk urðu í framhaldinu jafn sjálfsagður hluti ferðaáætlana ferðamanna á hringferð um landið og Gullfoss og Geysir. Til að mæta síauknum fjölda ferðamanna hefur Landsvirkjun staðið að töluverðri uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn á Kröflusvæðinu. Sumarið 2008 er áætlað að um hundrað þúsund ferðamenn hafi komið á Kröflusvæðið.

Markmið þessarar rannsóknar er að meta möguleg áhrif fyrirhugaðra framkvæmda vegna byggingu Kröfluvirkjunar II á ferðamennsku umhverfis Kröflu og Mývatn. Viðhorf helstu hagsmunahópa til fyrirhugaðra framkvæmda voru könnuð með viðtölum. Að mati viðmælenda liggur gildi svæðisins fyrir ferðamennsku fyrst og fremst í verðmætum náttúruperlum, fjölbreyttri náttúru og einstakri jarðfræði, en ekki síður í góðu aðgengi að þessum náttúruauðlindum fyrir ferðamenn. Það að Kröflusvæðið er jafnframt dyr að víðernunum norður af Mývatni eykur á gildi náttúruupplifunar svæðisins, segir í frétt um útkomu skýrslunnar.

Rannsóknin er unnin af Rannsóknamiðstöð ferðamála fyrir Landsvirkjun að beiðni verkfræðistofunnar Mannvits. Skýrsluna unnu dr. Rannveig Ólafsdóttir sérfræðingur við miðstöðina og Eva Sif Jóhannesdóttir sá um gagnöflun og skrif.