Ákveðið að taka þátt í ferðasýningu á Indlandi
Á fundi utanríkisráðuneytisins, Ferðamálastofu, Útflutningsráðs og hagsmunaaðila úr ferðaþjónustunni í morgun var ákveðið að taka þátt í ferðasýningunni SATTE sem haldin verður á Indlandi 28.-30. janúar 2010. Sýningin er talin sú stærsta sem haldin er á Indlandi fyrir fagaðila. Síðast, þ.e. á þessu ári, tóku 85 sýnendur frá 16 löndum þátt á sýningunni og skráðir indverskir kaupendur sem sóttu hana voru um 300, en að auki komu 2.000 indverskir kaupendur "inn af götunni".
Lögð hafa verið drög að pöntun á sýningarbás til að kynna ferðamöguleika á Íslandi og líklegt er talið að íslenskir þátttakendur verði að þessu sinni 4-5 talsins. Verkefnið verður unnið í samstarfi Ferðamálastofu og áðurgreindra aðila. Utanríkisráðuneytið með íslenska sendiráðið á Indlandi í farabroddi mun annast tengslin en fagleg framkvæmd mun verða í höndum Útflutningsráðs Íslands. Nánari fréttir verða sendar út síðar vegna þessa.
Vefsíða; www.satte.org