Árlegt endurmat tryggingarfjárhæða 2021 – Frestun á skilum gagna til 1. júlí
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vinnur nú að breytingum á tryggingarfyrirkomulagi ferðaskrifstofa vegna sölu pakkaferða. Frumvarp þess efnis verður lagt fyrir Alþingi á næstu dögum.
Vegna fyrirhugaðra breytinga er nauðsynlegt að fresta skilum ferðaskrifstofa á gögnum vegna árlegs endurmats tryggingarfjárhæða (árlegum skilum). Ferðamálastofa stefnir á að opna fyrir gagnaskil 1. júní nk. en gögnum ber að skila eigi síðar en 1. júlí. Frekari upplýsingar verða sendar til ferðaskrifstofanna um leið og frumvarpið verður að lögum. Upplýsingar munu einnig verða birtar á vef Ferðamálastofu, www.ferdamalastofa.is.
Fyrirhugaðar breytingar eru til hagsbóta fyrir neytendur og ferðaskrifstofur. Þannig verður neytendavernd að fullu tryggð með nýju tryggingakerfi og ferðaskrifstofur þurfa ekki að binda háar fjárhæðir í tryggingafé eins og núgildandi kerfi gerir ráð fyrir. Með breytingunum verður til ferðatryggingasjóður sem byggður verður á sjóðsfyrirkomulagi og ábyrgðum, sem hver og ein ferðaskrifstofa leggur fram. Sjóðshlutinn verður fjármagnaður með greiðslu einskiptis stofngjalds og greiðslu árlegs iðgjalds og er það byggt á árlegum útreikningi tryggingarfjárhæðar. Skylduaðild er að sjóðnum.
Ferðatryggingasjóðnum er ætlað að endurgreiða ferðamönnum þær greiðslur sem greiddar hafa verið vegna pakkaferðar eða samtengdrar ferðatilhögunar komi til ógjaldfærni eða gjaldþrots seljanda.
Gert er ráð fyrir að sjóðurinn verði stofnaður 1. júlí nk. Fram að þeim tíma gilda núverandi lög. Ferðaskrifstofur eru því minntar á að tilkynna þarf til Ferðamálastofu ef aukning verður á tryggingarskyldri veltu sem metur hvort endurskoða þurfi tryggingarfjárhæðina. Verði frumvarpið að lögum munu ákvarðanir um nýjar tryggingarfjárhæðir ekki liggja fyrir fyrr en í í haust.
Hlekkina hér að neðan vísa á Samráðsgátt þar sem er hægt að skoða fyrirhugaðar breytingar: