Ársskýrsla Ferðamálastofu 2010
Ársskýrsla Ferðamálastofu fyrir árið 2010 er nú komin út og er aðgengileg hér á vefnum. Skýrslunni var meðal annars dreift á málþinginu í morgun.
Breytingar á starfseminni
Í skýrslunni er farið yfir þau fjölbreyttu verkefni sem Ferðamálastofa sinnti á síðasta ári. Talsverðar breytingar urðu á árinu, bæði á starfi stofnunarinnar og ytra umhverfi. Víðtækustu breytingarnar urðu á sviði markaðsmála en með stofnun Íslandsstofu fluttist erlend markaðssetning þangað. Veruleg aukning varð á ýmsum sviðum, til að mynda í útgáfu ferðaskipuleggjendaleyfa.
Rannsóknir og kannanir
Rannsóknir og kannanir eru sem kunnugt er mikilvæg forsenda allrar áætlanagerðar. Ferðamálastofa sér um talningu á ferðamönnum sem koma til landsins, skipt eftir þjóðerni, Á árinu voru einnig kynntar niðurstöður könnunar á ferðalögum Íslendinga innanlands, könnunar meðal erlendra ferðamanna o.fl. Útgáfumál voru talsvert fyrirferðamikil og má þar nefna útgáfu vandaðrar handbókar um merkingar á ferðamannastöðum og friðlöndum.
Umhverfis-, þróunar og gæðamál
Starf að umhverfismálum var fjölbreytt sem fyrr. Meðal annars var úthlutað styrkjum til úrbóta á ferðamannastöðum líkt og verið hefur. Þróunar og gæðamál skipa æ stærri sess og má þar nefna flokkun gististaða og tjaldsvæða, námskeiðahald, kynningafundir o.fl. Síðast en ekki síst má nefna nýja gæða og umhverfiskerfið sem fékk nafnið VAKINN en undirbúningur að innleiðingu þess hélt áfram af fullum krafti á árinu.