Ásýnd íslenskrar ferðaþjónustu menningartengd í æ ríkari mæli
Í gær fór úthlutun menningarstyrkja Menningarráðs Austurlands fram við hátíðlega athöfn á Vopnafirði en alls hlutu 85 verkefni styrki. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri flutti ávarp við þetta tilefni og afhenti styrkina.
Í ávarpi sínu vísaði Ólöf Ýrr til flutnings ferðamála um síðustu áramót til iðnaðarráðuneytis. Með því sagðist hún að möguleikar geti skapast á frekari eflingu nýsköpunarstarfs að þessu leyti, enda mætast í nýju ráðuneyti ferðamála aðrar stofnanir sem koma að nýsköpunar- og byggðamálum. ?Það er von mín að sú nánd nýtist til eflingar á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu,? sagði Ólöf Ýrr.
Vaxandi hlutur menningar í ferðaþjónustu
Hún benti jafnframt á að á undanförnum árum hafa yfirvöld ferðamála í auknum mæli beint sjónum að markvissri uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu enda er menning þjóðarinnar einn þeirra fjögurra grunnþátta sem Ferðamálaáætlun til ársins 2015 miðast við. Þá hafi einstakir frumkvöðlar út um allt land lyft grettistaki, þannig að ásýnd íslenskrar ferðaþjónustu hefur í æ ríkari mæli orðið menningartengd. ?Það hefur verið afar gaman að fylgjast með þróuninni á þessu sviði, bæði viðtökum innlendra og erlendra ferðamanna við auknu framboði menningar og menningartengdrar afþreyingar á sviði ferðaþjónustu, en ekki síður hvernig hugmyndavinna á þessu sviði í byggðarlögum landsins hefur fært fólki heim sanninn um að sérstök og áhugaverð tækifæri leynast í heimabyggð, tækifæri sem grundvölluð eru á menningararfi og dægurmenningu. Út um allt land hefur byggst upp starfsemi á þessu sviði sem vekur með heimafólki verðskuldað stolt af arfleifð sinni og uppruna?, sagði Ólöf Ýrr.
Ólöf Ýrr ásamt styrkhöfum. Myndir: Skúli Björn Gunnarsson.