Auglýst eftir umsóknum um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum um allt land
Á undanförnum árum hefur Ferðamálaráð Íslands veitt styrki til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum. Svo verður einnig í ár og hefur nú verið auglýst eftir umsóknum um styrki fyrir árið 2003. Á síðustu árum hafa ákveðnir landshlutar komið til úthlutunar á hverju ári en að þessu sinni er ekki um slíka skiptingu að ræða heldur er hægt að sækja um styrki til úrbóta á ferðamönnastöðum um allt land. Þessi ákvörðun var tekin í ljósi þess að til stendur að hækka verulega þá heildarupphæð sem kemur til úthlutunar en hún var 6 milljónir króna á síðasta ári. Umsóknarfrestur er til og með 14. febrúar nk.
Sem dæmi um verkefni sem hlotið hafa styrki á síðustu árum má nefna gönguleiðamerkingar, stígagerð, skiltagerð og styrki til að koma upp salernisaðstöðu. Styrkirnir eru veittir til framkvæmda á vegum einstaklinga, fyrirtækja, félagasamtaka og sveitarfélaga. Skilyrði er að framkvæmdirnar stuðli að verndun náttúrunnar, samhliða bættum aðbúnaði ferðamanna. Nauðsynlegt er að framkvæmdir stangist ekki á við gildandi skipulag og séu unnar í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir, landeigendur, náttúruverndarnefndir og aðra aðila sem með málið hafa að gera s.s. Umhverfisstofnun.
Nánari upplýsingar um styrki 2003