Aukin umferð um Evrópuvefinn
Umferð heldur áfram að aukast um Evrópuvefinn visiteurope.com. Vefurinn inniheldur annars vegar síður þar sem fjallað er um Evrópu almennt og hins vegar er um að ræða síður einstakra landa.
Hvert og eitt land ber ábyrgð á að koma upplýsingum inn á sinn hluta vefsins og sér Ferðamálastofa um það sem að Íslandi snýr. Heimsóknatölur sýna að Ísland má bærilega una við sinn hluta í umferðinni. Erum við að um miðjan hóp þeirra 38 Evrópuríkja sem standa að vefnum. Vart þarf að koma á óvart að risar á sviði ferðaþjónustu eins og Spánn, Ítalía, Austurríki og Þýskaland fá mesta umferð. Evrópuvefurinn er eins og fram hefur komið einkum hugsaður fyrir fjærmarkaði og nú er meðal annars í vinnslu útgáfa fyrir Japansmarkað. Þá var í sumar tekið í notkun gagnvirkt kort af álfunni sem skilað hefur mikilli umferð (sjá mynd).