Aukin umferð um Evrópuvefinn
Umferð hefur stöðugt verið að aukast um nýja Evrópuvefinn visiteurope.com sem opnaður var í mars á þessu ári. Heimsóknatölur sýna einnig að Ísland má vel una við sinn hluta í umferðinni. Erum við að fá fleiri gesti en margar mun fjölmennari þjóðir og erum um miðjan hóp þeirra 34 Evrópuríkja sem standa að vefnum.
Vefurinn inniheldur annars vegar síður þar sem fjallað er um Evrópu almennt og hins vegar er um að ræða síður einstakra landa. Hvert og eitt land ber ábyrgð á að koma upplýsingum inn á sinn hluta vefsins og er nokkuð misjafnt hversu vel lönd hafa staðið sig í þeim efnum. Sé eingöngu skoðuð umferð um síður einstakra landa eru álíka margir að skoða síður Íslands og hinna Norðurlandanna. Vart þarf að koma á óvart að risar á sviði ferðaþjónustu eins og Spánn, Ítalía, Austurríki og Þýskaland fá mesta umferð.
Evrópuvefurinn er eins og fram hefur komið einkum hugsaður fyrir fjærmarkaði og fyrstu útgáfur hans voru gerðar fyrir Norður- og Suður-Ameríku. Fyrir nokkrum dögum var fleiri útgáfum bætt við, m.a. alþjóðlegri útgáfu á ensku. Af hálfu Ferðamálaráðs Evrópu, sem stýrir verkefninu, hefur á síðustu vikum verið ráðist í ýmsar aðgerðir til að auka útbreiðslu og umferð um vefinn. Meðal annars hefur verið í gangi átak í að bæta stöðu hans á leitarvélum, sem þegar hefur skilað góðum árangri.
Sterkasta markaðs- og kynningartækið á fjærmörkuðum
Ísland hefur verið aðili að Ferðamálaráði Evrópu í um 40 ár og ber ekki sérstakan kostnað af nýja vefnum umfram það vinnuframlag sem flest í vinnslu og innsetningu efnis sem viðkemur Íslandi, auk þýðingavinnu. Við njótum hins vegar til jafns við aðra góðs af því markaðs- og kynningarstarfi sem Ferðamálaráð Evrópu sinnir vegna verkefnisins. Af hálfu Ferðamálastofu verður á næstu mánuðum haldið áfram að þróa íslenska hluta vefsins, bæði hvað varðar virkni og innihald. ?Vefurinn er í reynd sterkasta kynningar- og markaðstæki Íslands á fjærmörkuðum enda sýna tölur að um 600 þúsund gestir komu í heimsókn á vefinn fyrstu 6 mánuðina og skoðuðu rúmlega 5 milljónir síðna,? segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri.