Aukinn ferðaáhugi Evrópubúa í haust og vetur
Niðurstöður nýrrar könnunar Ferðamálaráðs Evrópu (ETC), Monitoring Sentiment for Intra-European Travel, sýnir aukna ferðagleði Evrópubúa næstu mánuði. Samkvæmt henni áforma 73% svarenda að ferðast á tímabilinu sem spurt var um, þ.e. til mars 2025. Þetta er 6% aukning frá sama tímabili á síðasta ári.
Stærsti hópurinn, eða um tveir þriðju þeirra sem ætla að ferðast, stefnir á ferðalög til annarra Evrópulanda, um fjórðungur innan eigin lands og um 10% út fyrir Evrópu.
Bretar áhugasamir
Þegar niðurstöður fyrir einstök lönd eru skoðuð má sjá að Bretar viðast vera ferðaglaðastir en 84% svarenda lýsa ferðavilja, sem er 10% aukning frá 2023. Þetta hljóta að teljast góð tíðindi fyrir Ísland í ljósi mikilvægis Bretlandsmarkaðar yfir vetrarmánuðina. Í kjölfarið eru Þýskaland með 79% (+16%) og Frakkland með 78% (+15%). Öll löndin eru meðal lykilmarkaða okkar.
Ferðaþörfin eykst
Gögnin sýna vaxandi ferðagleði í öllum aldurshópum en mest meðal yngri Evrópubúa. Hjá þeim sem eru 25-34 ára og áforma ferðalög er hlutfallið 75%, sem er 9% aukning milli ára. Á sama hátt hyggjast nú 64% 18-24 ára ferðast (+8%), á meðan hlutfallið er 78% hjá þeim sem eru 35-44 ára (+7%). Yngri ferðamenn ætla að ferðast oftar, með mikilli áherslu á borgarferðir og afslappandi sól- og strandfrí.
Þrír af hverjum fjórum 55 ára og eldri áforma ferðalög sem er 4% aukning milli ára. Næstum helmingur (45%) áætlar ferðir lengri en sjö nætur og leitar sérstaklega að upplifunum ríkum af menningu og arfleifð eða náttúru og útivist. Þessir eldri ferðamenn hafa tilhneigingu til að kjósa þekkta áfangastaði með áreiðanlegum innviðum.
Hvert skal halda?
Vinsælustu ferðamannastaðir Evrópu halda áfram að verma efstu sætin þegar spurt er um áfangastaði í haust og vetur. Í efsta sæti eru Spánn og Frakkland, hvort um sig valið af 7% svarenda. Í kjölfarið kemur Ítalía með 6%. Þýskaland, Austurríki og Grikkland eru einnig á meðal vinsælustu áfangastaðanna, valin af 5% þeirra sem tóku þátt í könnuninni. Sé litið til nágrannalanda okkar þá eru Norðurlöndin, þar með talið Ísland, nefnd af 1-3% svarenda.
Hvers konar áfangastaðir?
Skýrslan sýnir einnig í fyrsta skipti hvaða tegundir áfangastaða Evrópubúar vilja kanna innan valinna landa. Gögnin sýna að 51% svarenda snúa sér að minna þekktum stöðum, líklega til að forðast of mikið álag á vinsælum stöðum. Yngri kynslóðir leiða þessa þróun og sýna skýra forgangsröðun til upplifana utan alfaraleiðar.
Hærri fjárhagsáætlanir, minni áhyggjur af kostnaði
Á heildina litið virðist fólk tilbúið að eyða heldur hærri upphæðum í ferðalög en sambærileg könnun fyrir ári síðan sýndi Þegar kemur að vali á áfangastöðum, er öryggi efst í forgangsröðuninni en þar á eftir koma stöðugt veður og góð tilboð.