Bætt öryggi ferðamanna í forgangi: Miðlægt atvikaskráningakerfi í undirbúningi
Meðal þess fyrsta sem kom til framkvæmda í aðgerðaáætlun ferðamálastefnu til 2030 var stofnun starfshóps um bætt öryggi ferðamanna og tók hann til starfa í október síðastliðnum. Hlutverk hans er að greina öryggismál í ferðaþjónustu, leggja fram tillögur að úrbótum og stuðla að samvinnu hagaðila.
Sex forgangsverkefni
Starfshópurinn hefur lagt áherslu á sex forgangsverkefni, þar á meðal skráningu slysa og óhappa, sem tengist beint niðurstöðum ráðuneytisstjórahóps um jöklaferðir eftir banaslys á Breiðamerkurjökli.
Stofnun miðlægs atvikaskráningakerfis
Í desember lagði starfshópurinn til stofnun miðlægs atvikaskráningakerfis fyrir ferðaþjónustu. Kerfið, sem er lykilatriði í aðgerð E.7. í ferðamálastefnu 2030, hefur það markmið að bæta yfirsýn og samhæfingu með markvissri skráningu upplýsinga og gagna um öryggismál innan greinarinnar. Dagbjartur Brynjarsson, sérfræðingur á sviði öryggismála, kynnti þessa vinnu m.a. á nýafstaðinni ráðstefnu Ferðamálastofu, Hvað vitum við um slys í ferðaþjónustu?, síðastliðinn miðvikudag.
Mikilvægi atvikaskráningakerfis
Miðlægt atvikaskráningakerfi mun bjóða upp á stafrænan vettvang þar sem hægt verður að halda utan um gögn og upplýsingar um slys, óhöpp og nærslys. Með kerfinu verður hægt að:
- Kortleggja flokka og tegundir slysa.
- Greina slysamynstur til að styðja við forvarnir og áhættustjórnun.
- Stytta viðbragðstíma við óhöppum.
- Bæta upplýsingamiðlun með ábyrgri gagnameðferð.
Notendavæn lausn fyrir alla hagaðila
Kerfið verður rekið af Ferðamálastofu og mun taka við tilkynningum frá ferðaþjónustufyrirtækjum, ferðamönnum og öðrum hagaðilum. Skráningin nær til slysa, nær slysa og innviðatengdra atvika. Mikilvægt er að kerfið verði einfalt í notkun og aðgengilegt í farsíma, auk þess sem unnið verður að samhæfingu við önnur kerfi. Gögnin sem safnast saman munu nýtast til stefnumótunar stjórnvalda og þróunar áfangastaða ásamt því að stuðla að bættri þjónustu og auknu öryggi.
Næstu skref
Nýlega óskaði Menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðuneyti Ferðamálastofu um að taka verkefnið að sér og koma á fót miðlægu atvikaskráningakerfi. Þó svo að ennþá sé langt í land þá er það mjög ánægjulegt að verkefnið sé komið af stað og það mun án vafa stuðla að auknu öryggi ferðamanna á Íslandi.
Nánari upplýsingar veitir:
Dagbjartur Brynjarsson, sérfræðingur á sviði öryggismála
dagbjartur@ferdamalastofa.is