Beint flug á milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar
Í gærkvöld lenti á Egilsstaðaflugvelli 120 sæta vél Aurela Air í Litháen. Hún verður í sumar í vikulegum ferðum á milli Kaupmannahafnar og Egilsstaða á vegum ferðaskrifstofunnar Trans-Atlantic á Akureyri.
Í fréttum RÚV var haft eftir forsvarsmönnum Trans-Atlantic að stærsti einstaki notandi þessarar þjónustu verði til að byrja með ítalska verktakafyrirtækið Impregilo. Þá kom fram að framtíðaráform varðandi flugið felist í að markaðssetja Austur og Norðausturland fyrir skandinavískum ferðamönnum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem beint flug erlendis frá er á Egilsstaðaflugvöll því þýska flugfélagið LTU flaug þangað í tvö sumur, árin 2002 og 2003. Þar var þó raunar um millilendingu að ræða á leið til Keflavíkur.
Ferðaskrifstofa Austurlands á Egilsstöðum sér um sölu og bókanir í tenglum við umrætt flug til og frá Kaupmannahöfn. Má geta þess að bæjarráð Fljótsdalshéraðs samþykkti fyrr í vor að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við Ferðaskrifstofu Austurlands um að sveitarfélagið tryggi sölu á allt að 100 farmiðum í beinu flugi til Kaupmannahafnar á þessu ári.
Á myndinni er vél Aurela Air á Egisstaðaflugvelli.
Mynd: Ferðaskrifstofa Austurlands