Blaðamenn gerðu góðan róm að söguslóðum
Samtök um sögutengda ferðaþjónustu gengust í haust fyrir þremur ferðum fyrir erlenda blaðamenn þar sem farin var ferð um landið með áherslu á söguna. Ferðamálastofa styrkti verkefnið sem nefndist Sögueyjan Ísland.
Samtök um sögutengda ferðaþjónustu voru stofnuð fyrir þremur árum. Aðilar er um 30 talsins, allt í kringum landið, og vinna þeir með söguna frá landnámi til siðaskipta, með áherslu á Íslendingasögurnar og arfleifð þeirra. Rögnvaldur Guðmundsson er formaður samtakanna og í úttekt á ferðavef mbl.is segir hann að nú sé komið að því að markaðssetja þetta starf í samvinnu við ferðaþjónustuaðila, svo sem ferðaskrifstofur, þ.e. söguferðir um landið.
?Við fengum nýverið styrk frá Ferðamálastofu til að skipuleggja blaðamannaferðir til Íslands undir heitinu Sögueyjan Ísland. Voru farnar þrjár ferðir með alls 20 blaðamenn á tímabilinu 26. ágúst til 13. september; fyrst með Breta, síðan hóp frá Norðurlöndunum og loks Þjóðverja og Austurríkismenn,? segir Rögnvaldur. ?Við notuðum þetta tækifæri til að prufukeyra ferðir, og nú eru ferðaskrifstofur að byrja að selja svona ferðir, t.d. Terra Nova og Ferðaskrifstofan Ísafold, bæði fyrir hópa og fólk á eigin vegum og verður boðið upp á pakka af þessu tagi í vetur og næsta sumar.
Nánar má lesa um þetta áhugaverða verkefni á ferðavef mbl.is og þaðan er myndin að ofan einnig fengin.