Bókin Ferðamál á Íslandi tilnefnd til verðlauna
Bókin Ferðamál á Íslandi eftir þá Edward H. Huijbens, forstöðumann Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Gunnar Þ. Jóhannesson, lektor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands er ein 10 bóka tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir árið 2013.
Viðurkenning fyrir ramúrskarandi fræði- eða kennslurit
Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna, veitir árlega viðurkenningu til framúrskarandi fræði- eða kennslurits. Viðurkenningin telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem höfundum fræðilegra rita fyrir skóla og almenning hér á landi getur hlotnast og nemur verðlaunaupphæðin einni miljón króna.
Viðurkenningaráð, skipað fimm félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum til tveggja ára í senn, stendur að valinu. Það skipa: Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, Bjarni Ólafsson íslenskufræðingur, Íris Ellenberger sagnfræðingur, Sigmundur Einarsson jarðfræðingur og Þorbjörn Broddason félagsfræðingur.
Tímabært undirstöðurit
Í umsögn ráðsins um Ferðamál á Íslandi segir: Tímabært undirstöðurit um ferðamál og þarft innlegg í umræðu um einn af helstu atvinnuvegum þjóðarinnar.
Önnur verk sem tilnefnd voru er hægt að sjá á vef Hagþenkis.