Breyting á skilafresti ferðaskrifstofa
Ferðaskrifstofur hafa nú frest til 1. október í stað 30. apríl áður til þess að skila inn tilskyldum gögnum í tengslum við árlega ákvörðun Ferðamálastofu á tryggingarfjárhæð viðkomandi aðila. Ástæða þessa er sú að skilafrestur stangaðist á við reglur ríkisskattstjóra um ársreikningaskil og til að koma til móts við leyfishafa var það samþykkt á síðasta þingi að samræma þessar tímasetningar.
Það skal þó undirstrikað að 1. október er lokafrestur og eru aðilar því hvattir til að skila inn nýjum gögnum frá og með byrjun þessa árs og eftir bestu getu vel fyrir lokafrestinn. Í því sambandi skal bent á ákvæði 3. mgr. 21. gr. um heimild Ferðamálastofu til að fella leyfi niður ef ferðaskrifstofa uppfyllir ekki skilyrði 18. gr. um árleg skil. Vinsamlegast kynnið ykkur frekari breytingar á lögum nr. 73/2005 um skipan ferðamála og einnig á althingi.is.