EDEN-tengslanetið stækkar
Ferðamálastofa er fyrir Íslands hönd aðili að Evrópska EDEN-verkefninu, sem stendur fyrir „European Destination of Excellence“. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á gæðum, fjölbreytileika og sameiginlegum einkennum Evrópskra áfangastaða og kynna til sögunnar nýja, lítt þekkta, áfangastaði vítt og breitt um Evrópu þar sem áhersla er lögð á ferðaþjónustu í anda sjálfbærni.
Samkeppni í hverju landi
Fá árinu 2007 hefur fimm sinnum verið haldin samkeppni um gæða áfangastaði í Evrópu og er nýtt þema á hverju ári. Einn staður er valinn frá hverju þátttökulandi og hefur Ísland verið með í tvö síðustu skiptin, 2010 og 2011. Þema ársins 2010 var Sjálfbær ferðaþjónusta tengd vatni (Sustainable Aquatic Tourism). Nokkrar áhugaverðar tillögur bárust en dómnefnd valdi Vestfirði og Vatnavinir Vestfjarða EDEN sem fulltrúa fyrir hönd Íslands. Árið 2011 var þemað „Ferðaþjónusta og endurnýjun svæða“ (Tourism and Regeneration of Physical Sites) og var Stykkishólmsbær fulltrúi Íslands.
Tengslanetið stækkar
Annar tilgangur EDEN-verkefnisins er að mynda tengslanet þeirra staða sem öðlast útnefningu. Þannig geti staðir aukið samvinnu sín á milli, skipst á upplýsingum, deilt góðum ráðum o.s.frv., öllum til hagsbóta. Í fyrra var svo tekin ákvörðun um að stækka tengslanetið enn frekar og bjóða stöðum sem orðið hafa í 2. sæti samkeppni viðkomandi lands þátttöku. Þar með bættust við tveir nýir íslenskir EDEN-staðir. Þetta eru Húsavík, sem varð í 2. sæti árið 2010 og Borgarfjörður eystri, sem varð í 2. sæti 2011.
Aðgengilegir ferðamannastaðir 2013
Á næstu dögum verður auglýst eftir þáttakendum í samkeppni þessa árs en þema ársins 2013 er „Aðgengilegir ferðamannastaðir“. Auglýsingunni munu fylgja nákvæmar útskýringar á reglum um þátttöku. Verðlaunaafhendingin og sýning með kynningu á öllum verðlaunaáfangastöðunum fer fram í Brussel næsta haust. Allir EDEN verðlaunahafar fá töluverða umfjöllun og kynningu í fjölmiðlum í Evrópu í tengslum við verðlaunaafhendinguna og á vefsíðum og kynningarritum EDEN verkefnisins eftir það.
Ný Facebook-síða
Í dag var einnig opnuð ný Facebook-síða fyrir verkefnið, þar verður hægt að fylgjast með því sem er á döfinni og nálgats helstu upplýsingar og skiptast á skoðunum. Slóðin er http://www.facebook.com/edenislandi