Eindregin mótmæli frá SAF vegna hugmynda um gistináttagjald
Samtök ferðaþjónustunnar hafa harðlega mótmælt hugmynd nefndar á vegum umhverfisráðuneytisins um að tekið verði upp gistináttagjald til uppbyggingar fjölsóttra ferðamannastaða á Íslandi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjasta fréttabréfi SAF á heimasíðu samtakanna.
Í frétt frá SAF segir að yfirlýsing umhverfisráðherra í fjölmiðlum um að gistináttagjaldið sé í anda auðlindargjalds í sjávarútvegi sé fráleit, þ.e. að þeir sem vilji nýta náttúruna greiði fyrir það. "Stór hluti gesta á hótelum landsins, bæði Íslendingar sem útlendingar, nýta ekki náttúru landsins þ.e. gestir sem hér eru eingöngu á fundum og ráðstefnum, í borgarferðum, verslunarferðum, viðskiptaferðum, í opinberum erindagjörðum o.s.frv. Hér er því um að ræða hugmynd að frekari skattlagningu ferðaþjónustufyrirtækja sem er ekki í neinum tengslum við ráðstöfun fjárins," segir orðrétt. Einnig segir að hugmyndir sem þessar séu í hrópandi mótsögn við þá stefnu ríkisstjórnar Íslands að reyna að fjölga erlendum ferðamönnum til Íslands því frekari skattlagning gerir Ísland dýrara og vanhæfara í samkeppni við önnur lönd. Heimasíða SAF
Myndin er af Hengifossi í Fljótsdal.