Evrópubúar vilja helst ferðast innanlands eða til næstu nágrannalanda
Um 70% Evrópubúa hafa áform um að ferðast næstu sex mánuði eða til nóvemberloka skv. niðurstöðum könnunar sem Evrópska ferðamálaráðið birti fyrir stuttu. Könnunin er nú framkvæmd í sjöunda sinn¹ meðal íbúa helstu ferðamannaþjóða Evrópu². Löngunin til að ferðast hefur ekki mælst svo mikil frá því hún fór af stað í ágústmánuði árið 2020.
Niðurstöðurnar sýna jafnframt:
- að helmingur Evrópubúa sem ætlar að ferðast næsta hálfa árið hefur áform um að heimsækja annað Evrópuland. Ríflega þriðjungur (36%) ætlar hins vegar að ferðast innanlands.
- að 1% ætlar í sína næstu Evrópuferð til Íslands eða álíka hátt hlutfall og til hinna Norðurlandanna. Þau lönd sem flestir Evrópubúar hafa áform um að ferðast til eru Spánn (11%), Ítalía (8%), Frakkland (7%), Grikkland (7%) og Portúgal (6%).
- að ríflega tveir af hverjum þremur Evrópubúum ætla að ferðast næst innan Evrópu sér til skemmtunar og um fimmtungur ætlar að heimsækja vini og ættingja.
- að 57% Evrópubúa telja að stafrænt COVID vottorð ESB muni auðvelda mönnum ferðalög og skipulagningu næstu ferðar.
- að 39% Evrópubúa ætla að ferðast næst um Evrópu á eigin bifreið en þeim fjölgar frá fyrri könnunum sem taka einkabílinn fram yfir aðra samgöngumáta. Evrópubúar virðast hafa verulegar áhyggjur, með hliðsjón af öryggi og heilsu, af áhættunni sem fylgir því að fara í flug og almenningssamgöngur.
- að það sem Evrópubúar sakna mest við að ferðast er að njóta lífsins í afslöppuðu umhverfi (16%), losna úr hinu daglega umhverfi (15%), verja gæðastundum með fjölskyldu eða vinum (15%), búa til minningar (12%) og njóta nýrra staða og sökkva sér ofan í menningu þeirra (10%).
- að Evrópubúar, hafa líkt og síðustu mánuði áhyggjur af; að þurfa að sæta sóttkví meðan á ferðalagi stendur (19%), fjölgun Covid-19 tilfella á áfangastað (13%), hugsanlegum breytingum á ferðatakmörkunum meðan á ferð stendur (13%), að verða veikur á ferðalaginu (12%), þeim takmörkunum sem eru í gildi á áfangastað (12%) og afbókunarskilmálum (9%).
Skýrsluhöfundar beina því til áfangastaða að höfða til aldurshópa og markaða með hátt bólusetningarhlutfall og að markaðir verði endurskilgreindir með hliðsjón af því að tveir af hverjum þremur Evrópubúum kjósa að ferðast innanlands og til nálægra landa. Ennfremur að fyrirtæki eigi að vera opin fyrir því að setja fram tilboð með skömmum fyrirvara og hanna auglýsingaherferðir þar sem gert er ráð fyrir stuttum bókunarfyrirvara. Til að viðhalda jákæðni fyrir ferðalögum ættu ferðamálayfirvöld að hefja markaðssetningu nú fyrir fjórða ársfjórðung 2021.
Hér má nálgast frétt ETC um könnunina.
Um könnunina
¹Könnunin var gerð dagana 19.-29. maí 2021 og kemur í framhaldi af sambærilegum könnunum sem gerðar voru; a) 5.-19. febrúar, b) 18. desember 2020 til 7. Janúar 2021, c) 20. nóvember til 3. desember 2020, d) 19. október - 6. nóvember 2020, e) 21. september - 9. október 2020 og f) 27. ágúst - 15. september 2020.
Könnunin er liður í vöktun á því hvaða áhrif COVID-19 hefur á ferðaáætlanir og ferðalöngun Evrópubúa, hvers konar ferðalög Evrópubúar vilja fara, til hvaða áfangastaða, hvenær næstu frí verða tekin og hvort þeir óttist að ferðast.
²Könnunin náði til íbúa í Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Belgíu, Sviss, Spáni, Póllandi og Austurríki og var bundin við þátttakendur sem höfðu farið í a.m.k. tvö ferðalög á árinu 2019 þar sem var gist yfir nótt.