Experience Iceland í fjórða sinn
Í gær hófst "4th Annual Experience Iceland, Incentive & Convention Seminar" sem haldið er árlega á vegum Ráðstefnuskrifstofu Íslands og Icelandair.
Boðið er til Íslands sérstaklega fyrirtækjum, víða að, sem eru sérhæfð í að skipuleggja ráðstefnur, fundi og hvataferðir. Fulltrúar fyrirtækjanna kynna sér alla aðstöðu, aðbúnað og þjónustu er varðar þennan mikilvæga hluta ferðaþjónustunnar. Fyrirtækin hitta síðan aðildarfélaga Ráðstefnuskrifstofu Íslands sem eru sérhæfð í móttöku ráðstefnugesta og hvataferðahópa. Um 75 erlendir gestir eru á námsstefnunni sem stendur yfir í 3 daga. Gestirnir koma frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Norðurlöndunum, Þýskalandi, Frakklandi, Belgíu, Hollandi, Eistlandi, Rússlandi.
Mikilvægur vettvangur
Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðsviðs Ferðamálaráðs, hefur viðburðurinn enn á ný treyst sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir markaðssetningu á Íslandi sem áfangastaðar fyrir ráðstefnur og hvataferðir. "Það er stöðugt verið að bæta aðstöðu og þjónustu við þennan kröfuharða hóp. Ráðstefnuskrifstofa Íslands fer fyrir harðsnúnu og reynslumiklu fólki á þessu sviði og hitta allir gestirnir aðildarfélaga Ráðstefnusskrifstofunnar á snörpum fundum og gera með sér viðskipti. Um 15 aðildarfélagar Ráðstefnuskrifstofunnar úr hópi skipuleggjenda og hótelreksturs eru á fundunum" segir Ársæll að lokum.