Færni í ferðaþjónustu í Grundarfirði
Námskeiðið Færni í ferðaþjónustu I, fyrsti hluti var haldið í Grundarfirði í liðinni viku. Þetta er annað árið í röð sem boðið er upp á námskeiðið á Vesturlandi.
Nemendur á námskeiðinu komu frá Grundarfirði, Stykkishólmi og af sunnanverðu Snæfellsnesi. Markmiðið með námskeiðinu er að auka gæðavitund þeirra sem starfa við þjónustustörf, efla vitund þeirra fyrir sínu nærumhverfi og kynna þeim mikilvægi ferðaþjónustu sem atvinnugreinar fyrir Vesturland. Námskeiðið tókst mjög vel og vonast er til að námskeiðið verði kennt á fleiri stöðum næsta vor.
Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi stendur að námskeiðinu í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, en kennsluna önnuðust; Einar Gunnlaugsson, Guðrún Vala Elísdóttir, Margrét Björnsdóttir og Þórdís G. Arthursdóttir en hún var einnig verkefnastjóri. Auk leiðbeinendanna kom Jónas Guðmundsson, markaðsfulltrúi hjá Grundarfjarðarbæ, einnig að skipulagningu námskeiðsins.
Sögumiðstöðin í Grundarfirði var heimsótt í námskeiðslok og þar tók Ingi Hans á móti hópnum og kynnti starfsemina og sýnd var kynningarmynd af Vesturlandi.
Hópmyndin var tekin í Sögumiðstöðinni. Ljósmyndari Gunnar Kristjánsson.