Farfuglaheimilið Ósar meðal þeirra bestu
Í septemberhefti fréttabréfs alþjóðasamtaka farfuglaheimila kemur fram að Farfuglaheimilið að Ósum á Vatnsnesi er á lista yfir 10 bestu farfuglaheimili í heimi, í flokki meðalstórra farfuglaheimila. Byggt er á mati gesta sem gistu þar á tímabilinu júní-ágúst sl.
Allir sem bóka gistingu á farfuglaheimilum gegnum bókunarvél alþjóðasamtakanna fá tækifæri til að segja álit sitt á þjónustunni sem veitt er og fékk Farfuglaheimilið að Ósum alls 91 stig af 100 mögulegum á þessu tímabili. Tvö önnur íslensk farfuglaheimili eru tengd bókunarvélinni; Farfuglaheimilið í Reykjavík og Ytra Lóni á Langanesi. ?Fyrir næsta sumar vonumst við til þess að fleiri heimili munu tengjast bókunarvélinni,? segir Markús Einarsson, framkvæmdastjóri Farfugla.
Að sögn Markúsar hefur á undanförnum árum verið unnið ötullega að uppbyggingu Farfuglaheimilisins að Ósum og er sú uppbygging greinilega að skila sér. ?Farfuglaheimilið er einstaklega vel staðsett. Í göngufæri er m.a. að finna fjölbreytt fuglalíf og eitt fjölskipaðasta sellátur hér á landi. Þá er kletturinn Hvítserkur einnig í göngufæri við heimilið,? segir Markús.