Farþegum Iceland Express fjölgaði um 20%
Samkvæmt frétt frá Iceland Express var síðasta ár það besta í rekstri félagsins og flutti það um það bil 20% fleiri farþega árið 2007 heldur en árið á undan. Flogið var til 15 áfangastaða í Evrópu á síðasta ári auk þess að fljúga beint frá Akureyri og Egilsstöðum til Kaupmannahafnar síðasta sumar.
Fram kemur einnig að á þessu ári verður sætaframboð aukið á nokkrum áætlunarleiðum, þar á meðal til London, Kaupmannahafnar, Alicante og Basel. Jafnframt mun Iceland Express hefja í fyrsta sinn reglulegt áætlunarflug til Varsjár í Póllandi í vor auk þess sem Barcelona verður einn af sumaráfangastöðum félagsins en flug þangað hófst síðasta haust.
Umtalsverð fjölgun var á farþegum sem flugu beint milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, en þetta var annað sumarið sem Iceland Express flýgur á þeirri áætlunarleið. Aukningin var um 32% og munaði þar miklu um aukinn fjölda erlendra ferðamanna, sem voru um helmingur allra farþega sem flugu milli Kaupmannahafnar og Akureyrar.
Erlendum ferðamönnum sem fljúga með Iceland Express fjölgar jafnframt talsvert milli ára. Um 22% fleiri erlendir ferðamenn flugu með félaginu árið 2007 heldur en árið 2006.
?Árið 2007 var afar gott fyrir Iceland Express og í raun ótrúlegt að flugfélag sem hefur ekki starfað nema í tæp fimm ár sé orðið eins öflugt og raun ber vitni. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að samkeppni í farþegaflugi er ekki bara möguleg á okkar markaði, heldur bráðnauðsynleg. Við stefnum að sjálfsögðu að því að árið 2008 verði enn betra og munum bæði auka sætaframboð og leita nýrra leiða til að auka fjölbreytni og samkeppni til hagsbóta fyrir íslenska neytendur,? segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express.