Félag ferðamálafulltrúa á Íslandi mikilvægur samstarfsvettvangur
Félag ferðamálafulltrúa á Íslandi (FFÍ) er samstarfsvettvangur þeirra sem vinna að framgangi ferðamála um allt land. Auk ferðamálafulltrúa eru í félaginu forstöðumenn upplýsingamiðstöðva og aðrir sem vinna að ferðamálum sveitarfélaga og/eða landshluta.
Félagið er vettvangur fyrir samstarf, faglega umræðu og fræðslu og geta allir sem áhuga hafa sótt um aðild. ?Mannaskipti eru oft mikil í ferðaþjónustu og því mikilvægt fyrir nýja starfsmenn að láta vita af sér og taka þátt í faglegu samstarfi sem þessu. Þá er FFÍ í Félagi ferðamálafulltrúa í Evrópu (EUTO-European Tourist Officers),? segir Marín Hrafnsdóttir, formaður Félags ferðamálafulltrúa.
Félag ferðamálafulltrúa á Íslandi (FFÍ) var stofnað 12. október árið 2000. Í lögum félagsins er kveðið á um hlutverk félagsins og markmið sem eru:
- Að vinna að eflingu starfshæfni félaganna með því að vera þátttakandi í þróunarstarfi í ferðaþjónustu innanlands sem og á alþjóðlegum vettvangi.
- Að vera ráðgefandi til félagsmanna um starfsmenntun, endurmenntun og ýmis þróunarmál er auðgað gætu starfsleikni ferðamálafulltrúa.
- Að vinna að eflingu samstarfs ferðamálafulltrúa við stofnanir og samtök innan ferðaþjónustunnar.
- Að halda saman upplýsingum um ferðamálafulltrúa sem starfa á Íslandi, starfsvettvang þeirra og starfsskipan.
- Að vera upplýsingabanki fyrir starfandi ferðamálafulltrúa gagnvart upplýsingum, vinnuskipulagi og öðru því er snertir starfsskipunarmál.
- Að vinna í nánu samstarfi við ferðamálafulltrúa annars staðar í heiminum til að styrkja tengsl, þekkingu og hæfni félagsmanna.
Þeir sem hafa hug á að ganga í félagið eða kynna sér félagsskapinn betur snúi sér til stjórnar félagsins en í henni eru; Marín Hrafnsdóttir menningar- og ferðamálafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, Aðalheiður Borgþórsdóttir ferða- og menningarfulltrúi Seyðisfjarðar og Kristján Ingimarsson ferða- og menningarfulltrúi Djúpavogshrepps.