Ferðamálaráð Íslands 40 ára
Miðvikudaginn 7. júlí 2004 eru liðin 40 ár frá því Ferðamálaráð Íslands tók til starfa, en fyrsti fundur ráðsins var haldinn 7. júlí 1964. Í móttöku sem efnt var til í dag vegna þessara tímamóta opnaði samgönguráðherra Sturla Böðvarsson nýjan og gjörbreyttan upplýsingavef Ferðamálaráðs Nýji vefurinn er á 6 tungumálum en undanfarin misseri hefur vefurinn verið langmest sótti upplýsingavefur um ferðamál í landinu. Á vefnum er að finna heilsteyptan gagnagrunn um flest sem viðkemur ferðaþjónustu hér á landi þar á meðal er skrá yfir alla leyfisskylda aðila í íslenskri ferðaþjónustu.
Á þeim 40 árum sem Ferðamálaráð hefur starfað hefur ferðamönnum sem leggja leið sína til Íslands fjölgað mikið. Fyrstu tíu árin (1965 til 1974) lögðu 510 þúsund erlendir ferðamenn leið sína til landsins, en síðustu 10 ár (1995-2004)var fjöldi erlendra ferðamanna sem komu til Íslands kominn í 2,6 milljónir. Því er spáð að næstu 10 ár muni rúmar 4 milljónir erlendra ferðamanna heimsækja Ísland.
Til marks um aukið mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúskapinn má nefna að árið 1963 námu tekjur af ferðaþjónustu 0,8% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar en árið 2003 komu 13 % af gjaldeyristekjunum frá ferðaþjónustunni.
Jón Karl Ólafsson formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir að síðustu áratugi hafi íslensk ferðaþjónusta breyst úr því að vera nánast tómstundaiðja eða aukabúgrein í einn aðal atvinnuveg þjóðarinnar. "Það er ljóst að Ferðamálaráð hefur með samstarfi sínu við aðila innan ferðaþjónustunnar gengt lykilhlutverki í þeirri þróun sem orðið hefur" segur Jón Karl Ólafsson.
Áhersla á umhverfismál
Ferðamaálaráð Íslands fer með stjórn ferðamála undir yfirstjórn samgönguráðuneytisins og er eina stjórnsýslustofnun ferðaþjónustunnar í landinu. Meðal verkefna sem ráðinu eru falin eru landkynning og markaðsmál, skipulagning og áætlunargerð um íslensk ferðamál og rannsóknir og kannanir í ferðamálum. Umhverfismál eru einnig vaxandi þáttur í starfsemi ráðsins en Ferðamálaráði ber að sjá til þess að helstu áfangastaðir ferðamanna séu undir það búnir að taka við þeim straumi fólks sem að þeim beinist á hverjum tíma. Þessi þáttur í starfsemi Ferðamálaráðs hefur vakið verðskuldaða athygli erlendis því þannig er reynt að tryggja að ágangur verði ekki of mikill á einstaka ferðamannastaði. Síðustu þrjú ár hefur verið ráðstafað árlega um 50 milljónum króna til uppbyggingar á aðstöðu fyrir ferðamenn víða um land. Segja má að viss "einkavæðing" sé nú hafin í þessum efnum því á liðnu ári var ákveðið að úthluta 15 af þessum 50 milljónum til einkaaðila til uppbyggingar á stöðum sem ráðið samþykkir.
Aukin umsvif - meira fjármagn
Frá upphafi hefur verið unnið út frá því meginmarkmiði að dreifa heimsóknum ferðamanna sem mest um landið og á árstíðir. Umsvif Ferðamálaráðs Íslands hafa farið vaxandi á liðnum árum en auk skrifstofa í Reykjavík og á Akureyri og upplýsinga-miðstöðva í öllum landshlutum, rekur Ferðamálaráð í dag skrifstofur í New York í Bandaríkjunum og í Frankfurt í Þýskalandi. Fyrr á þessu ári opnaði ráðið síðan skrifstofu í Kaupmannahöfn. Þá hefur Ferðamálaráð yfirumsjón með rekstri Ráðstefnumiðstöðvar Íslands en hún var stofnuð árið 1992 af Ferðamálaráði, Flugleiðum og Reykjavíkurborg og leiðandi aðilum á sviði funda og ráðstefnuhalds.
Árlega tekur Ferðamálaráð þátt í um 40 ferðamálasýningum og um 40 þúsund fyrirspurnum frá erlendum einstaklingum er svarað auk þess sem dreift er um hálfri milljón bæklinga fyrir ýmsa aðila í ferðaþjónustu. Starfsmenn Ferðamálaráðs Íslands eru í dag 22 en velta ráðsins á síðasta ári var um 400 milljónir króna. Samkvæmt fjárlögum hafa fjárveitingar til ferðamála liðlega þrefaldast á síðustu fjórum árum. Árið 1999 var 189,9 milljónum króna varið til ferðamála en árið 2003 var heildarupphæð fjárveitinga til ferðamála komin í 617 milljónir króna.
Sígild viðfangsefni
Þótt starfsemi Ferðamálaráðs hafi breyst mikið á undanförnum 40 árum þá eru viðfangsefnin sígild. Þannig gæti fyrsta erindið sem tekið var fyrir á fyrsta fundi ráðsins þann 7. júlí 1964 eins hafa verið til umræðu í dag en það erindi var frá stjórnvöldum sem leituðu álits Ferðamálaráðs á þeirri hugmynd að selja aðgang að Þórsmörk. Þá sem nú lagðist ráðið gegn hugmyndum um slíka gjaldtöku. Á fyrstu árum Ferðamálaráðs fór mikil vinna í svara beint erindum sem bárust, en í dag fer meiri tími í uppbyggingu rafrænna gagnagrunna þar sem hægt er að leita upplýsinga milliðliðlaust á vefnum. Til að gera þetta kleift hefur verið lögð aukin áhersla á ýmiskonar rannsóknir og kannanir á vegum ráðsins.
Ferðamálastjóri var fyrst skipaður árið 1978 og hafa þrír menn gengt því starfi; Lúðvík Hjálmtýsson, Birgir Þorgilsson og núverandi ferðamálastjóri Magnús Oddsson. Alls hafa um 100 einstaklingar verið skipaðir í Ferðamálaráð þau 40 ár sem það hefur starfað en á afmælisdaginn var haldinn 658. fundur ráðsins frá upphaf. Það er samgönguráðherra sem skipar 7 fulltrúa í Ferðamálaráð í dag, en þegar flest var á árum áður sátu 23 fulltrúar í ráðinu. Núverandi formaður Ferðamálaráðs Íslands er Einar K. Guðfinnsson alþingismaður.