Ferðamálaráðstefnan 2005 verður í Reykjavík
Nú er komin dagsetning á hina árlegu ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands. Hún verður að þessu sinni haldin í Reykjavík dagana 27.-28. október næstkomandi.
Leitast við að ræða það sem efst er á baugi
Ráðstefnan í Reykjavík verður sú 35. í röðinni og í ár eru jafnframt liðin 40 ár frá því að Ferðamálaráð hélt fyrstu ferðamálaráðstefnuna, þá á Akureyri Á ferðamálaráðstefnum er kafað ofan í ýmis mál sem skipta miklu fyrir íslenska ferðaþjónustu og leitast við að ræða það sem efst er á baugi í umræðunni í það og það skiptið. Dagskráin verður nánar auglýst síðar en þess má þó geta að líkt og undanfarin ár verða umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs afhent í tengslum við ráðstefnuna.
Opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu
Ráðstefnurnar eru jafnan fjölsóttar enda er hér kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að hittast og stilla saman strengi sína. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu og mikilvægi hennar fyrir ferðaþjónustuna lýsir sér á fleiri en einn hátt. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða.
Mynd: Norðurljós yfir höfuðborginni.
Ragnar Th. Sigurðsson