Fara í efni

Ferðamálasamtök Íslands lögð niður

Sólarlag
© Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson.

Á aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands í liðinni viku var samþykkt að að slíta starfsemi samtakanna. Ferðamálasamtök Íslands hafa verið samstarfsvettvangur átta landhlutasamtaka sem unnið hafa að framgangi ferðamála hvert á sínu svæði.

Fram kemur að ástæðuna megi reka til breytinga sem átt hafa sér stað í stuðningskerfi greinarinnar á liðnum árum og vilja til að einfalda stjórn- og stuðningskerfi greinarinnar. Lögð er áhersla á mikilvægi hlutverks markaðsstofa landshlutanna sem víðast hvar hafa tekið við mörgum þeirra verkefna sem Ferðamálasamtökin höfðu með höndum. Eru stjónvöld hvött til að standa þétt við bakið á markaðsstofum landshlutanna.

Samþykkt aðalfundar Ferðamálasamtaka Íslands

"Með vísan til þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað innan stjórnar Ferðamálasamtaka Íslands, ályktunar síðasta aðalfundar FSÍ, nýrra áhersla stjórnvalda og atvinnugreinarinar samþykkir aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands sem haldin er að Geirsgötu 9. Reykjavík föstudaginn 26 febrúar 2016 að slíta starfsemi Ferðamálasamtaka Íslands.

Helsta ástæða þessarar ákvörðunar er stuðningur við markmið stjórnvalda um einföldun á stjórn- og stuðningskerfi atvinnugreinarinnar. Auk þess vill aðalfundurinn stuðla að öflugri grasrótarvinnu í hverjum landshluta með vísan til vaxandi hlutverks Markaðsstofa Landshlutanna og samstarfs þeirra.

Ferðaþjónustan,- stjórn og stuðningskerfi greinarinnar hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár meðal annars með stofnun Íslandsstofu, Stjórnstöðvar ferðaþjónustunnar, breyttum áherslum ferðamálasamtaka í hverjum landshluta og tilkomu Markaðsstofa landshluta. Hlutverk Ferðamálasamtaka Íslands hefur sökum þessa breyst mikið og verkefni sem samtökin hafa unnið að undanfarna áratugi þróast áfram á öðrum og nýjum vettvangi.

Stjórn Ferðamálasamtaka Íslands leggur áherslu á mikilvægi hlutverks Markaðsstofa landshlutanna sem víðast hvar hafa tekið við mikið af þeim verkefnum sem Ferðamálasamtökin höfðu með höndum og hvetur stjórnvöld til að standa þétt við bakið á Markaðsstofum landshlutanna.

Reykjavík 26 febrúar 2016.
Stjórn Ferðamálasamtaka Íslands"