Ferðamálasamtök Íslands skora á stjórnvöld að endurskoða fjárlagafrumvarpið
Á stjórnarfundi Ferðamálasamtaka Íslands, sem haldinn var á Kirkjubæjarklaustri 14. október síðastliðinn, var samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld að endurskoða tillögur sínar í fjárlögum fyrir árið 2005 er snýr að framlögum til ferðamála.
Orðrétt segir í ályktuninni: "Stjórn Ferðamálasamtaka Íslands skorar á fjármálaráðherra, fjárlaganefnd og aðra þingmenn að endurskoða tillögur sínar í fjárlögum fyrir árið 2005, þar sem lagt er til að lækka til muna framlög til ferðamála.
Það getur ekki verið rökrétt að draga úr slagkrafti þeirrar atvinnugreinar sem hefur undanfarin ár verið helsti vaxtarsproti í íslensku atvinnulífi og átt stóran þátt í miklum hagvexti þjóðarinnar. Það væri mikill skaði ef skera á niður framlög sem stjórnvöld hafa veitt til grunnþátta ferðaþjónustunnar eins og framlög til upplýsingamiðlunar, upplýsingamiðstöðva og markaðssetningar innanlands, ekki síst með skýrskotun til þess að ferðamenn á eigin vegum eru nú mun fleiri en þeir sem koma í hópum. Einnig væri það mikill skaði ef minnka á framlög til faglegrar kynningar og markaðssetningar landsins erlendis í samvinnu við atvinnugreinina."