Ferðamálasjóður lagður niður
Nú um áramótin var Ferðamálasjóður lagður niður í þeirri mynd sem hann hefur starfað og tók ríkissjóður við eignum og skuldum hans. Samgöngu-, iðnaðar- og fjármálaráðuneyti gerðu með sér samkomulag um að stuðningur við verkefni á sviði ferðaþjónustu verði áfram veittur í formi samstarfs Ferðamálaráðs og Byggðastofnunar.
Verkefnin verða annars vegar fjármögnuð með styrkjum af hálfu ferðamálayfirvalda og hins vegar með lánum frá Byggðastofnun. Jafnframt verða aðrar lánastofnanir hvattar til að sinna þessari vaxandi atvinnugrein betur en nú er, enda nauðsynlegt að aðgengi að lánsfjármagni fyrir arðbær fyrirtæki á þessu sviði sé gott. Með þessu breytta fyrirkomulagi er gert ráð fyrir að fjármunir í málaflokknum nýtist betur en verið hefur.
Hefur staðið veikum fótum
Eins og margoft hefur komið fram hefur mikill vöxtur verið í ferðaþjónustunni sem atvinnugrein á síðustu árum. Tekjur sem sköpuðust af komu erlendra ferðamanna hingað til lands voru um 27.498 milljónir króna árið 1999 en um 37.720 milljónir króna tveimur árum seinna. Þessi þróun hefur átt sér stað þrátt fyrir að Ferðamálasjóður hafi staðið veikum fótum en sjóðurinn var rekinn með 67,1 milljón króna tapi á árinu 2001. Því miður náði Ferðamálasjóður aldrei að verða greininni sá styrkur sem t.d. Fiskveiðasjóður var í sjávarútveginum á sínum tíma. Engu að síður hefur sjóðurinn komið að mörgum mikilvægum verkefnum svo sem að fjármögnun hótelbygginga.