Ferðamálastjóri í heimsókn á Suðurnesjum
Í liðinni viku var Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálstjóri í heimsókn á Suðurnesjum í boði markaðsstofu Suðurnesja og Ferðamálasamtaka Suðurnesja. Í ferðinni kynntu heimamenn þá fjölbreyttu möguleika í ferðaþjónustu sem svæðið býður uppá.
Í Reykjanesbæ var m.a. skoðað svæðið við Víkingaheima og söfnin í Duushúsi. Þá var haldið að Bláa lóninu, Salfisksetrið í Grindavík skoðað og haldið að Gunnuhver þar sem framkvæmdir eru á döfinni. Farið var í Reykjanesvirkjun, brúin á milli heimsálfa skoðuð, sem og bæði Fræðasetrið í Sandgerði og Byggðasafnið í Garði. Heimsókninni lauk síðan í Vogum á Vatnsleysuströnd.
Ólöf sagði heimsóknina hafa verið bæði fróðlega og gagnlega. ?Mér fannst sannarlega vera kraftur í ferðaþjónustu á Suðurnesjum og margt á döfinni sem gaman var að fá kynningu á. Ekki síst er ljóst að Reykjanesið verður æ áhugaverðari áfangastaður íbúa á höfuðborgarsvæðinu og annarra Íslendinga fyrir fjölskyldufólk, sem getur þarna fundið mýmargt áhugavert að sjá og upplifa. Reyknesingar voru nýverið að stofna markaðsstofu og ég horfi með tilhlökkun til aukins samstarfs við hana, líkt og aðrar markaðsstofur landshlutanna,? segir Ólöf. Á myndinni er hún með Kristjáni Pálssyni, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurnesja og formanni Ferðamaálsamtaka Suðurnesja.