Ferðamálastofa með rafræn skil á skjölum
Ferðamálastofa hefur fengið heimild Þjóðskjalasafns Íslands til rafrænna skila á skjölum til safnsins og eru skjölin stofnunarinnar því ekki lengur vistuð á pappír. Aðeins 17 stofnanir og sveitarfélög hafa leyfi til slíks í dag en margir opinberir aðilar eru í umsóknarferli.
Fyrr á árinu var innleitt nýtt skjalakerfi fyrir Ferðamálastofu. Að lokinni skoðun var ákveðið að velja hugbúnað frá fyrirtækinu OneSystems en það sérhæfir sig í hönnun skjala- og málalausna fyrir Microsoft-umhverfið og eru lausnir þess þegar í notkun hjá fjölmörgum aðilum hérlendis. Í framhaldinu var samið við fyrirtækið Skipulag og skjöl ehf. um að annast innleiðingu í samvinnu við starfsfólk Ferðamálastofu.
Með nýju skjalakerfi er mun auðveldara en áður að halda utan um þau mál sem eru í gangi á hverjum tíma ásamt því að halda fullu öryggi á einstökum skjölum. Með góðri skjalastjórnun batnar þjónusta við viðskiptavini og komið er til móts við kröfur í opinberri stjórnsýslu.