Ferðamálastofa og samgönguráðuneytið skrifa undir árangursstjórnunarsamning
Undirritaður hefur verið árangursstjórnunarsamningur milli samgönguráðuneytisins og Ferðamálastofu. Tilgangur hans er að festa í sessi ákveðið samskiptaferli milli þessara aðila og skerpa áherslur í framkvæmd verkefna.
Í samningnum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur beggja aðila. Ferðamálastofa skal leggja fram áætlun til fjögurra ára fyrir 1. júlí 2007 þar sem fram komi hvernig stofnunin hyggist vinna að markmiðum sem tilgreind eru í ferðamálaáætlun 2006 til 2015. Þá skal leggja fram áætlun fyrir 15. desember ár hvert þar sem gerð er grein fyrir helstu verkefnum og árangri sem stefnt er að á komandi ári. Einnig skal leggja fram ársskýrslu þar sem borin eru saman markmið og árangur ársins og fram koma einnig þau tilmæli ráðuneytisins að Ferðamálastofa leiti leiða til að flytja verkefni út á land.
Um ábyrgð og skyldur ráðuneytisins segir meðal annars að því beri að taka afstöðu til markmiðssetningar, forgangsröðunar og mælikvarða sem fram koma í langtímaáætlun Ferðamálastofu innan eins mánaðar frá því áætlunin er lögð fram. Einnig skal ráðuneytið skýra frá afstöðu sinni til árangursmats í ársskýrslu. Þá mun samgönguráðuneytið hlutast til um að fjárveitingar til starfseminnar séu nægilegar til að hún geti sinnt skyldum sínum.
Þá eru talin upp í samningnum markmið og áherslur sem samgönguráðuneytið óskar eftir að unnið sé að, meðal annars rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar, kynningarmál, rannsóknir, umhverfismál og fleira. Samningurinn gildir frá 1. mars næstkomandi til fjögurra ára.
Á meðfylgjandi mynd skrifa þeir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Magnús Oddsson ferðamálastjóri undir árangursstjórnunarsamninginn. Mynd: Jóhannes Tómasson.