Ferðamálastofa styður náttúrupassa
Ferðamálastofa lýsir yfir fullum stuðningi við vinnu sem nú er í gangi við útfærslu svokallaðs náttúrupassa að frumkvæði Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ráðherra ferðamála.
Mikilvægt að vanda til verka
Líkt og skýrt kom fram í úttekt sem Ferðamálastofa lét vinna í fyrrasumar og nefnist „Fjármögnun uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða - Yfirlit yfir gjaldtökuleiðir“ eru margar mismunandi leiðir í gangi í öðrum löndum og útfærsla á náttúrupassa er ákveðið brautryðjendastarf. Því er eðlilegt að tíma taki að finna heppilega útfærslu, enda áhersla lögð á af hálfu ráðherra að vanda til verka og hafa sem víðtækast samráð um framkvæmdina, fremur en að fara af stað með ófullburða og illa ígrundaða hugmynd.
Ferðaþjónustuaðilar sýni þolinmæði
Ferðamálastofa hvetur aðila í ferðaþjónustu til að sýna þolinmæði og biðlund á meðan ofangreind vinna er í gangi. Uppbygging og viðhald ferðamannastaða vinnst ekki sem átaksverkefni með skammtímahugsun að leiðarljósi. Þvert á móti er mikilvægt að byggja á rannsóknum, vönduðu skipulagi og stöðugri vinnu þar sem nauðsynlegt fjármagn er tryggt til þeirra verka sem vinna þarf.
Uppbygging víða í gangi
Þótt álag á einstaka ferðamannastaði hafi sannarlega aukist verulega síðustu misseri má heldur ekki gleyma að víða eru góð og nauðsynleg verkefni í gangi. Má í því sambandi benda á að í fyrra úthlutaði Framkvæmdasjóður ferðamannastaða talsvert á sjötta hundruð milljóna króna til verkefna víða um land. Nú styttist einnig í næstu úthlutun sjóðsins.
Ríki og sveitarfélag kosta undirbúning við Geysi
Meðal verkefna sem Framkvæmdasjóðurinn styrkti í fyrra var hugmyndasamkeppni fyrir framtíðarskipulag Geysissvæðisins, sem hlaut 20 milljóna króna styrk gegn jafn háu framlagi sveitarfélagsins Bláskógabyggðar. Þannig eru ríki og sveitarfélag að kosta alfarið þá nauðsynlegu undirbúningsvinnu sem þarf til að Geysissvæðið geti tekið á móti vaxandi fjölda ferðamanna svo að sómi sé að.
Innheimta á hverjum stað óheillaþróun
Ferðamálastofa hefur skilning á að landeigendur á vinsælum náttúrustöðum vilji fjármagn til aukinna framkvæmda, því víða er sannarlega mikil þörf. Stofnunin varar á hinn bóginn við þeirri þróun að einstaka aðilar hefji gjaldtöku hver inn á sinn stað. Slíkt fyrirkomulag hlýtur alltaf að verða afar óhagkvæmt í rekstri þegar á heildina er litið, auk þess sem það skerðir ef að líkum lætur upplifun gesta okkar af landi og þjóð að þufa að greiða sérstaklega fyrir að skoða hvern ferðamannastað.
Nánari upplýsingar veitir Elías Bj. Gíslason, settur ferðamálastjóri,
elias@ferdamalastofa.is - 535-5500 / 898-9435