Fara í efni

Ferðamenn almennt ánægðir með dvöl sína á Íslandi

Ásbyrgi
Mynd: Frá Ásbyrgi. ©Ragnar Th. Sigurðsson

Samkvæmt niðurstöðum Ferðamannapúls Isavia, Ferðamálastofu og Gallup fyrir mánuðina júní og júlí, þá eru ferðamenn sem sækja Ísland heim almennt ánægðir með dvöl sína. Meðaleinkunnin sem þeir gefa er um 85 á skalanum 0- 100 sem er svipuð einkunn og hefur mælst framan af ári.

Munur á þóðerni og dvalarlengd

Þó er nokkur munur á útkomu eftir þjóðerni og hefur lengd dvalar einnig áhrif á mat fólks á veru sinni á Íslandi. Ferðamenn sem dvelja 1-2 nætur gefa lægstu einkunnir í Ferðamannapúlsinum og er ánægja þeirra sem dvelja styst marktækt lægri en þeirra sem dvelja lengur. Meðaleinkunn þeirra sem dvelja í 1-2 nætur er 81 miðað við 87 hjá þeim sem dvelja 5 – 14 nætur. Samkvæmt púlsinum voru Rússar ánægðastir ferðamanna en þeir gáfu 90,8 í meðaleinkunn fyrir júní og júlí, Ungverjar voru næstánægðastir með 90 í meðaleinkunn og Portúgalar koma þar á eftir með 87 í einkunn. Japanir voru hins vegar minnst ánægðir að meðaltali með 73 í einkunn.

Byggir á fimm spurningum

Ferðamannapúlsinn mælir heildaránægju og heildarupplifun á heimsókn ferðamanna til Íslands og er samstarfsverkefni Gallup, Isavia og Ferðamálastofu. Mælingar hófust í mars á þessu ári og byggja þær á netföngum ferðamanna sem fara í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Púlsinn byggir á fimm spurningum sem allar vigta jafnt og mæla heildaránægju, gestrisni, hversu líklegir ferðamenn séu til að mæla með Íslandi sem áfangastað, uppfyllingu væntinga og hvort ferðin hafi verið peninganna virði.

Landsbyggðin meira heimsótt á sumrin

Í Ferðamannapúlsinum voru ferðamenn einnig spurðir frekar út í ferðalagið sitt á Íslandi. Samkvæmt púlsinum sækja fleiri ferðamenn landsbyggðina heim yfir sumartímann en að vetri til. Hlutfall þeirra ferðamanna sem sækir höfuðborgina heim helst stöðugt í kringum 95% en aðrir landshlutar fá mun hærra hlutfall ferðamanna að sumri til. Mestur reyndist munurinn á Norðurlandi og Vestfjörðum þar sem ríflega þrefalt fleiri heimsækja þá landshluta að sumri en að vetri.

Nýting á gistimöguleikum

Að jafnaði segjast ríflega tveir þriðjuhlutar erlendra ferðamanna nýta hótelgistingu í dvöl sinni yfir vetrarmánuðina en samsvarandi hlutfall fer hins vegar niður í 50% yfir sumartímann. Því lækkar hlutfall erlendra ferðamanna sem nýtir sér hótelgistingu um ríflega 16% milli vetrar og sumars. Á sama tíma eykst hlutfall þeirra sem nýtir sér gistingu í heimahúsum (s.s. Airbnb, heimilisskipti og fleira) töluvert og nær upp í 29%, en alls segjast tæplega 22% hafa leigt sér íbúð í gegnum Airbnb.

Ferðamáti ólíkur eftir árstíðum

Töluverður munur er á hlutfalli ferðamanna sem nýta sér rútuferðir og skipulagðar ferðir að vetri og sumri. Tæplega 53% nota rútur yfir vetrartímann en sama hlutfall er einungis 32% að sumri. Á sama tíma eykst hlutfall ferðamanna sem leigir bíla umtalsvert, úr 40% að vetri upp í 60% yfir sumarið.

„Það er mikilvægt að fá þessar upplýsingar um upplifun ferðamanna hérlendis yfir háannatímann. Það er ánægjulegt að sjá að aukinn fjöldi ferðamanna hefur ekki áhrif á heildaránægju þeirra sem koma til landsins, en hún er að mælast svipuð yfir vetrar- og sumartímann. Mælingar á ánægju ferðamanna skiptir miklu máli fyrir framtíðarspár en ánægðir ferðamenn eru líklegri til að koma aftur til landsins og mæla með ferðalagi til landsins,“ segir Einar Einarsson, framkvæmdastjóri Gallup.

Skoða Ferðamannapúlsinn