Fara í efni

Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum komin út

Ferðaþjónusta í tölum - mars 2011
Ferðaþjónusta í tölum - mars 2011

Í nýútgefnum tölfræðibæklingi Ferðamálastofu, Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum, má finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um íslenska ferðaþjónustu. Niðurstöðurnar eru settar fram á myndrænan hátt með stuttum skýringatextum.

Meðal efnis má nefna niðurstöður úr nýlegum könnunum meðal erlendra ferðamanna á Íslandi 2009- 2010 og um ferðir Íslendinga  innanlands árið 2010 í samanburði við fyrra ár, auk samantekta um ferðamannatalningar, hótelgistinætur og ferðaþjónustureikninga.

Ferðaþjónusta gjaldeyrisskapandi
Eins  og sjá má í bæklingi  hefur ferðaþjónustan  stóreflst á síðustu árum og er hún nú ein af stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum þjóðarinnar.  Á árunum 2000 – 2008 var hlutdeild ferðaþjónustu innanlands í heildarútflutningstekjum að meðaltali 18,8%. Atvinnugreinin er auk þess mannaflsfrek og voru störf í ferðaþjónustu 5,1% af heildarfjölda starfa á landinu árið 2009.

Fjöldi ferðamanna og árstíðabundin sveifla
Ferðamönnum hefur fjölgað umtalsvert á síðustu árum en árleg aukning hefur verið 5,3% milli ára að jafnaði síðastliðin tíu ár. Árið 2010 komu tæplega 495 þúsund erlendir ferðamenn til landsins eða tæplega 200 þúsund fleiri en á árinu 2000. Þar að auki komu um 70 þúsund erlendir gestir til landsins árið 2010 með skemmtiferðaskipum. Árstíðabundinnar sveiflu gætir í komum gesta en samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Leifsstöð kemur tæplega helmingur ferðamanna um Keflavíkurflugvöll yfir sumarmánuðina, tæplega þriðjungur að vori eða hausti og um fimmtungur að vetri.  Árstíðabundinnar sveiflu gætir ennfremur í ferðum Íslendinga um eigið land en langflestir Íslendingar ferðast að sumri til.

Sund og jarðböð álíka vinsæl hjá erlendum
ferðamönnum og Íslendingum á ferðalögum
Erlendir ferðamenn hafa einkum áhuga á náttúrutengdri afþreyingu og fóru fjölmargir í náttúruskoðun, gönguferðir, fjallgöngu, hvalaskoðun, bátsferð eða eldfjallaferð í  Íslandsferðinni sumarið 2010. Sund og jarðböð voru ennfremur nýtt af fjölmörgum erlendum ferðamönnum en sund og jarðböð eru jafnframt sú afþreying sem flestir Íslendingar greiddu fyrir á ferðalögum árið 2010. Fáir Íslendingar greiddu hins vegar fyrir náttúrutengda afþreyingu.

Gistinætur
Erlendir ferðamenn gistu samkvæmt könnunum að jafnaði 5,9 nætur veturinn 2009-2010 og 10,4 nætur sumarið 2010. Íslendingar gistu hins vegar að jafnaði 14,9 nætur á ferðalögum innanlands árið 2010. Gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum voru um ein milljón árið 2010 en gistinætur Íslendinga um 250 þúsund.  Íslendingar nýta sem áður ódýra tegund gistingar í miklum mæli en helmingur Íslendinga á ferðalagi innanlands árið 2010 gisti hjá vinum og ættingjum og sama hlutfall í tjaldi, fellihýsi eða húsbíl.

Meðal  efnis í bæklingnum er eftirfarandi:

  1. Ferðaneysla innanlands eftir vöruflokkum, fjöldi ferðaþjónustustarfa og hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu og heildarútflutningstekjum.
  2. Erlendir ferðamenn til Íslands eftir komustöðum.
  3. Fjöldi gesta með skemmtiferðaskipum.
  4. Erlendir ferðamenn til Íslands um Keflavíkurflugvöll eftir mánuðum og tímabilum.
  5. Gistinætur á hótelum eftir mánuðum.
  6. Erlendir ferðamenn á Íslandi 2009-2010 (kyn, aldur, tilgangur ferðar, ferðafélagar, tegund ferðar, dvalarlengd).
  7. Erlendir ferðamenn á Íslandi  sumarið 2010 (hver er hvatinn að Íslandssferð, hvaða afþreying er nýtt, hvað finnst ferðamönnum minnisstæðast við Íslandsferðina og finnst fólki ferðin standa undir væntingum).
  8. Ferðalög Íslendinga árið 2010 í samanburði við ferðalög á árinu 2009 (hvenær ferðast Íslendingar á árinu og hvert, hversu lengi dvelja þeir, hvaða afþreyingu nýta þeir og hvaða gistingu).
  9. Ferðaáform Íslendinga 2011.

Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum - mars 2011 (PDF)

Vefútgáfa (flettanegt á vefnum)