Ferðaþjónusta bænda í Vakann
Á myndinni eru frá vinstri Alda Þrastardóttir Ferðamálastofu, Sævar Skaptason og Berglind Viktorsdóttir frá Ferðaþjónustu bænda og Áslaug Briem frá Ferðamálastofu.
Ferðaþjónusta bænda hlaut viðurkenningu Vakans sem veitt var við hátíðlega athöfn á uppskeruhátið félagsmanna þann 16. nóvember síðastliðinn. Á sama tíma fékk fyrirtækið gull-umhverfismerki Vakans fyrir áherslur í sjálfbærni og umhverfismálum.
Rík áhersla á gæði og sjálfbærni
"Það er fyrirtækinu mikill heiður að hljóta viðurkenningu Vakans sem hefur það markmið að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu á Íslandi. Við hjá Ferðaþjónustu bænda höfum frá upphafi lagt ríka áherslu á að efla gæði og sjálfbærni í starfsemi okkar og vinnum markvisst að ná settum markmiðum fyrirtækisins. Viðurkenning Vakans fyrir gæða- og umhverfismál er starfsmönnum fyrirtækisins mikil hvatning og veitir okkur innblástur til að vinna enn frekar að umbótum. segir Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Ferðaþjónustu bænda.
Ferðaþjónusta bænda er leiðandi í íslenskri ferðaþjónustu og leggur áherslu á náttúru- og menningartengda ferðaþjónustu. Ferðaskrifstofan sérhæfir sig annars vegar innanlands í kynningu, markaðssetningu og sölu á gistingu og afþreyingu hjá íslenskum ferðaþjónustubændum um land allt með yfir 180 gististaði af ýmsu tagi, en þar má finna bændagistingu, bústaði, svefnpokagistingu og sveitahótel. Hins vegar sérhæfir hún sig í fjölbreyttum ferðum um allan heim með íslenskri fararstjórn.
Við hjá Vakanum og Ferðamálastofu óskum Ferðaþjónustu bænda til hamingju með glæsilegan árangur og bjóðum þau innilega velkomin í Vakann.