Ferðaþjónusta í tölum – janúar 2021
Í samantektinni Ferðaþjónusta í tölum – janúar 2021, sem kom út í dag, má sjá samantekt um brottfarartalningar erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll, skráðar gistinætur, nýtingu á hótelum og nokkrar niðurstöður er varða dvöl ferðamanna á Íslandi s.s. um tilgang ferðar, dvalarlengd, heimsóknir eftir landshlutum sem og upplifun af Íslandsferð.
Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru tæplega 480 þúsund árið 2020 eða um 1,5 milljón færri en árið 2019. Fækkunin milli ára nemur 75,9%. Sé dreifing brottfara innan ársins 2020 skoðuð kemur í ljós að um um sjö af hverjum tíu brottförum voru á tímabilinu janúar til mars eða um 333 þúsund talsins. Um 124 þúsund eða fjórðungi færri brottfarir er að ræða en á sama tímabili árið 2019. Brottfarir að sumri til voru um fjórðungur brottfara ársins eða um 115 þúsund talsins, 562 þúsund færri en sumarið 2019. Nemur fækkunin 83% milli ára. Um sex prósent brottfara árið 2020 voru farnar sjö mánuði ársins eða á tímabilinu apríl til júní og á tímabilinu september til desember.
Um 4% erlendra brottfara voru af tíu þjóðernum og voru Bretar, Bandaríkjamenn, Þjóðverjar, Pólverjar og Frakkar þau fjölmennustu. Bandaríkjamönnum fækkaði hlutfallslega mest milli ára 2019-2020 eða um 88,7%.
Langflestir eða níu af hverjum tíu ferðamönnum voru í fríi á Íslandi árið 2020, um 3,8% í heimsókn hjá vinum og ættingjum, 2,8% í viðskiptalegum tilgangi og 2,2% öðrum persónulegum tilgangi. Dvalarlengd þeirra ferðamanna sem komu árið 2020 var að jafnaði 6,9 nætur, lengst í ágúst eða 11,8 nætur. Af tíu fjölmennustu þjóðernunum voru Þjóðverjar og Ítalir með lengstu dvalarlengdina eða 9,5 nætur.
Skráðar gistinætur voru tæplega þrjár milljónir talsins árið 2020 samkvæmt gistináttagrunni Hagstofunnar eða 64,8% færri en árið 2019. Um helmingur gistinótta var á hótelum og fækkaði þeim um 67,2% frá árinu 2019. Nærri tvær af hverjum fimm hótelgistinóttum mátti rekja til Íslendinga en gistinætur þeirra voru um 536 þúsund árið 2020, ríflega fimmtungi fleiri en árið 2019.
Nýtingin á hótelherbergjum fór niður fyrir 10% á landsvísu fjóra mánuði ársins, í apríl, maí, nóvember og desember. Í október var hún 11% og í september 16%. Hæst var nýtingin á landsvísu í febrúar eða 61% og þar á eftir komu janúar (49% nýting) og júlímánuður (48% nýting). Þegar ferðaþjónustuna tók lítils háttar kipp upp úr miðjum júní eftir tilslakanir á landamærum fór nýtingin á hótelum upp á við og þá einkum á landsbyggðinni. Nýtingin fór til að mynda yfir 70% á Norðurlandi og Austurlandi í júlí.
Þar sem ferðalög erlendra gesta til landsins lágu niðri stóran hluta ársins vegna Covid-19 var ekki haldið úti samfelldri gagnasöfnun um ferðavenjur með könnunum.