Fara í efni

Ferðaþjónustureikningar 2000-2008

Ferðaþjónjstureikningar
Ferðaþjónjstureikningar

Hagstofa Íslands birtir nú öðru sinni ferðaþjónustureikninga, að þessu sinni fyrir tímabilið 2000–2008. Þar kemur m.a. fram ferðaneysla innanlands á árinu 2008 og dreginn er upp ferðajöfnuður fyrir árið 2009.

Metur efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúskapinn
Ferðamennska og starfsemi sem tengist ferðalögum og þjónustu við ferðamenn er vaxandi atvinnugrein hér á landi eins og víða erlendis. Ferðaþjónusta er í raun og veru ekki sérstök atvinnugrein, eins og t.d. fiskveiðar þar sem atvinnustarfsemin ræðst af því hvað er framleitt, heldur afmarkast hún við það hver kaupir. Ferðaþjónustureikningar hafa það hlutverk að meta efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu fyrir þjóðarbúskapinn. Helstu hagtölur í ferðaþjónustu byggjast á niðurstöðum um útgjöld eða kaup erlendra ferðamanna á Íslandi, útgjöldum Íslendinga á ferð um eigið land og útgjöldum Íslendinga á ferðalagi erlendis. Ekki var unnt að gera heildstætt yfirlit yfir ferðaþjónustu á árinu 2009 þar sem framleiðsluupgjör þjóðhagsreikninga liggur ekki fyrir. Upplýsingar um útgjöld erlendra ferðamanna innanlands ásamt upplýsingum um gistinætur liggja hins vegar fyrir og varpa ljósi á þróunina á árinu 2009.

Meginniðurstöður

  • Á árunum 2000–2008 hefur hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu verið á bilinu 4,3% til 5,7. Mestur var hann árið 2002 en minnstur 2006, en að meðaltali var hann 4,9%.
  • Heildarumsvif fyrirtækja í ferðaþjónustu á árinu 2008 námu ríflega 209 milljörðum króna eða sem svarar um 14% af vergri landsframleiðslu og þá er búið að áætla fyrir umsvifum íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands.
  • Heildarferðaneysla innanlands á árinu 2008 var rúmlega 171 milljarður króna eða sem svarar rúmlega 11,5% af vergri landsframleiðslu.
  • Ferðaneysla innanlands skiptist þannig að kaup erlendra ferðamanna voru 93,5 milljarðar, ferðaneysla heimilanna um 67,5 milljarðar og kaup fyrirtækja og opinberra aðila 9,5 milljarðar króna.
  • Á árinu 2008 er áætlað að ríflega 9.200 manns hafi starfað við ferðaþjónustu eða um 5,1% af störfum alls.

Gjaldeyristekjur og ferðaneysla 2009
Á árinu 2009 voru gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum 155 milljarðar króna. Þá er búið að taka tillit til umsvifa íslenskra ferða- og flugþjónustufyrirtækja vegna starfsemi utan Íslands. Ferðaneysla erlendra ferðamanna innanlands var 112 milljarðar króna en 43 milljarðar króna eru tekjur vegna ferðamanna utan Íslands. Á árinu 2009 hækka meðalútgjöld á ferðamann úr ríflega 186 þúsund krónum í 227 þúsund krónur. Meðalgengi krónunnar veiktist um rúmlega 34% milli 2008 og 2009 sem að öðru jöfnu hefur styrkt samkeppnisstöðu landsins sem ferðamannalands, segir Hagstofan.

Íslenskir ferðamenn
Um 45% af umsvifum ferðaþjónustu innanlands á árinu 2008 má rekja til íslenskra ferðamanna. Á árinu 2003 var þetta hlutfall 47%. Ferðaútgjöld Íslendinga innanlands hafa aukist verulega á undanförnum árum en ferðaneysla erlendra ferðamanna hefur aukist hlutfallslega meira.

Framleiðsluvirði í ferðaþjónustu 2008
Heildarframleiðsluvirði í ferðaþjónustu á grunnvirði var 179 milljarðar króna 2008 og aðfanganotkunin 123 milljarðar króna eða 69% af framleiðsluvirðinu. Mismunurinn 56,2 milljarðar króna er sá virðisauki eða verðmætaaukning sem leiðir af þjónustu við ferðamenn. Ferðaþjónustureikningar mæla þannig bein efnahagsáhrif þeirra fyrirtækja sem annast þjónustu við ferðamenn.

Ferðaþjónustureikningar 2000-2008