Fara í efni

Fjallvegir opnir óvenju snemma í ár

adfarayfira
adfarayfira

Flestir helstu hálendisvegir landsins eru nú opnir fyrir umferð. Allar leiðir á sunnanverðu hálendinu eru orðnar færar en ennþá eru nokkrar leiðir norðantil lokaðar.

Bæði Kjölur og Sprengisandur eru opnir en hins vegar eru leiðir upp úr Skagafirði og Eyjafirði enn lokaðar. Sama má segja um Arnarvatnsheiði, Gæsavatnaleið og leiðina inn í Herðubreiðarlindir og Öskju vestan Jökulsár. Hins vegar er opið inn í Kverkfjöll með því að fara leiðina austan árinnar.

Óvenju snemmt
Líkast til hafa fjallvegir aldrei verið opnaðir jafn snemma og í ár. Þannig hefur norðanverður Sprengisandur að jafnaði verið opnaður 27. júní undanfarin ár, leiðin Landamannalaugar-Eldgjá hefur að jafnaði verið opnuð 23. júní og Fjallabaksleið-syðri ekki fyrr en um mánaðamót júní/júlí.

Vegagerðin gefur vikulega út kort með upplýsingum um ástand hálendisvega og er hægt að nálgast það með því að smella hér.