Fjöldi ferðamanna í maí
Ferðamálastofa sér um talningu á ferðamönnum sem fara um Leifsstöð og er þar hægt að sjá skiptingu þeirra eftir þjóðerni. Niðurstöður fyrir maí liggja nú fyrir og þar með fimm fyrstu mánuðir ársins.
Alls fóru tæplega 36 þúsund erlendir gestir um Leifsstöð í maí, samanborið við rúmlega 34 þúsund í sama mánuði í fyrra. Fjölgunin nemur rúmlega 1.700 manns eða 5%. Inn í tölunum eru allir með erlent ríkisfang sem fara um flugstöðina og er vinnuafl því sem fyrr inn í þessum tölum.
Þróun á mörkuðum
Sé litið til helstu markaðssvæða Íslands þá er fjölgun frá Mið-Evrópu, samdráttur frá N.-Ameríku en fjöldi Norðurlandabúa og Breta er nánast óbreyttur á milli ára. Í kjölfar nýrrar flugleiðar á milli Íslands og Kanada má greina fjölgun þaðan og athygli vekur einnig veruleg aukning á milli ára frá Þýskalandi og Hollandi. Að sögn Davíðs Jóhannssonar, forstöðumanns skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt, er jafnan talsvert um hópferðir í maí, bæði almenna ferðamenn og þá sem koma á ráðstefnur og í hvataferðir. Því getur fjöldinn sveiflast nokkuð á milli ára en ánægjulegt sé að sjá fjölgun nú. Þá megi væntanlega rekja hluta fjölgunarinnar til aukinnar afþreyingar í tengslum við sjóstangveiði á Vestfjörðum, sem er vinsæl meðal Þjóðverja.
Hér að neðan má sjá fjölda gesta um Leifsstöð í maí, skipt eftir þjóðerni. Heildarniðurstöður úr talningum Ferðamálastofu má finna hér á vefnum undir liðnum Talnaefni.
Erlendir gestir um Leifsstöð í maí 2007/2008 | |||
2007 | 2008 | Aukning/ fækkun milli ára (%) | |
Bandaríkin | 4754 | 3357 | -29,4 |
Bretland | 4997 | 4935 | -1,2 |
Danmörk | 3016 | 3348 | 11,0 |
Finnnland | 1077 | 1131 | 5,0 |
Frakkland | 1471 | 1468 | -0,2 |
Holland | 1256 | 1739 | 38,4 |
Ítalía | 429 | 404 | -5,8 |
Japan | 315 | 284 | -9,8 |
Kanada | 500 | 995 | 99,0 |
Kína | 381 | 647 | 69,8 |
Noregur | 3439 | 3011 | -12,4 |
Pólland | 1197 | 2050 | 71,3 |
Rússland | 31 | 24 | -22,6 |
Spánn | 515 | 409 | -20,6 |
Sviss | 247 | 255 | 3,2 |
Svíþjóð | 2911 | 3090 | 6,1 |
Þýskaland | 2365 | 3095 | 30,9 |
Önnur lönd | 5355 | 5739 | 7,2 |
Samtals | 34256 | 35981 | 5,0 |