Fjölmargir heimsóttu Íslandsperlur
Fjölmargir lögðu leið sína á sýninguna Íslandsperlur sem haldin var í Perlunni um helgina. Þar gafst gestum tækifæri á að kynna sér fjölbreytta ferðamöguleika á Íslandi, skoða, spjalla og spyrja, bragða á íslenskum krásum og njóta fjölbreyttra viðburða. Að Íslandsperlum stóðu markaðsstofur landshlutanna í ferðaþjónustu, Ferðaþjónusta bænda, Opinn landbúnaður og Beint frá býli.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri flutti ávarp við opnunina og tilkynnt var um val á EDEN- verðlaunahafa, eða fulltrúa Íslands í verkefnið gæðaáfangastaðir Evrópu 2011 ,,European Destination of Excellence“. Vigdís Finnbogadóttir setti svo sýninguna formlega og flutti við það tækifæri skemmtilegt ávarp þar sem hún sagði frá aðkomu sinni að íslenskri ferðaþjónustu sem leiðsögumaður og fleira á þeim árum sem segja má að greinin hafi enn verið að slíta barnsskónum.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnunina.