Fleira menntað fólk til liðs við ferðaþjónustuna
Nýlega var útskrifaður hópur ferðamálafræðinga við Háskólann á Hólum. Fimm útskrifuðust með BA gráðu í ferðamálafræði, ein með diplómagráðu í ferðamálafræði og ein með diplómagráðu í viðburðastjórnun.
BA-nemendurnir völdu sér áhugaverð viðfangsefni í lokverkefnum sínum:
Claudia Lobindzus skrifaði ritgerð um Hóla sem áfangastað ferðamanna. Hún lagði könnun fyrir ferðafólk á Hólum sumarið 2008 til að kanna hvert væri helsta aðdráttarafl staðarins, hvernig fólki líkaði heimsóknin og fá nánari upplýsingar um bakgrunn gestanna.
Guðmundur Ögmundsson skrifaði um ímynd Vesturlands. Markaðssetning og ímynd áfangastaða, sem heimamenn eru sáttir við er mikilvægur liður í uppbyggingu ferðaþjónustu. Guðmundur beitti rýnihópavinnu til að draga fram hugmyndir heimamanna um ímynd Vesturlands og bar niðurstöðurnar saman við greiningu á kynningarefni um svæðið.
Hulda Hildibrandsdóttir frá Bjarnarhöfn skrifaði um aukið aðgengi ferðamanna að staðbundnum landbúnaðarafurðum á Snæfellsnesi. Hulda tók viðtöl við fólk sem tengist landbúnaði og ferðaþjónustu á Snæfellsnesi um hvort ferðafólk er fýsilegur markhópur fyrir afurðir landbúnaðar á svæðinu og þá hvernig mætti auka aðgengi þess að staðbundnum landbúnaðarvörum.
Kristján Benediktsson skrifaði um silungsveiði í Skagafirði og byggði ann á viðtölum við veiðirétthafa í Firðinum. Í kjölfar umræðu um aukna áherslu á markaðssetningu silungsveiði í veiðiferðaþjónustu valdi Kristján að kanna nánar hug veiðiréttarhafa til þeirrar uppbyggingar sem hún kallar á.
Rósa María Vésteinsdóttir kannaði hug hagsmunaaðila til landbúnaðarsýninga með viðtölum. Landbúnaðarsýningin Sveitasæla var tekin til sérstakrar athugunar. Í verkefninu var fjallað um tilgang sýninganna og mögulegt mikilvægi þeirra í mótun ímyndar nútíma landbúnaðar.
Ritgerðirnar eru varðveittar á háskólabókasafninu á Hólum og er öllum velkomið að skoða þær og lesa.
Elín Kristbjörg Sigurðardóttir hlaut viðurkenningu Ferðamálastofu fyrir góðan námsárangur í diplómanámi í ferðamálafræði.
Marta Eiríksdóttir fékk viðurkenningu iðnaðarráðuneytisins fyrir góðan námsárangur í viðburðastjórnun og Claudia Lobindzus fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í BA námi í ferðamálafræði sömuleiðis frá iðnaðarráðuneytinu.
Nýútskrifaðir ferðamálafræðingar frá Háskólanum á Hólum.