Food and Fun hátíðin hófst í dag
Matar- og skemmtihátíðin "Food and Fun" hófst í dag en hún stendur fram á laugardag. Hátíðin er nú haldin í sjötta sinn á fjölmörgum veitingastöðum höfuðborgarinnar.
Með hátíðinni er stefnt að því að kynna gæði íslenskra matvæla og veitingamennsku og er gert ráð fyrir um fimmtíu erlendum fréttamönnum til landsins. Heimskunnir matreiðslumeistarar frá Bandaríkjunum og Evrópu verða í eldhúsum nokkurra bestu veitingastaða borgarinnar og elda með íslenskum starfsbræðrum sælkeramáltíðir fyrir gesti þá daga sem hátíðin stendur yfir.
Samstarfsaðili "Food and Fun" hátíðiarinnar líkt og undanfarin ár er Iceland Naturally, sem er sameiginlegur kynningarvettvangur íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja í Bandaríkjunum og er verkefnið vistað á skrifstofu Ferðamálastofu í Bandaríkjunum. Undanfarin ár hefur "Food and Fun" hátíðin vakið mikla athygli erlendis.
Vert er að benda á matreiðslukeppnina í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsnu, sem hefst kl. 13:00 á laugardag. Þar reyna meistarakokkarnir með sér og er keppnin opin fyrir áhorfendur. Heimasíða Food and Fun.